24.11.1950
Neðri deild: 27. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í C-deild Alþingistíðinda. (3127)

26. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Frv. þetta er fram borið af hv. þm. Hafnf., en ekki hefur hann samt sjálfur samið það, heldur er það samið af sérstakri n., sem á sínum tíma var fengið það verkefni að undirbúa löggjöf um þetta efni.

Ég tel, að ástæða sé til þess að gera nokkrar breyt. á frv., bæði efnislega og eins orðabreyt. Iðnn. hefur flutt nokkrar brtt. við frv., og hefur hv. þm. Hafnf., frsm. n., gert grein fyrir þeim, þegar málið var á dagskrá síðast. Ég tel, að þó þessar brtt. n. verði samþ., þá sé það ekki nóg, heldur þurfi að gera viðtækari breyt. á frv., og þess vegna flyt ég nokkrar brtt. á þskj. 153 og vil fara um þær nokkrum orðum. — Það er gert ráð fyrir því í frv., að þessi löggjöf komi í staðinn fyrir l. um eftirlit með verksmiðjum og vélum, og það mun til þess ætlazt samkv. frv., að þetta opinbera eftirlit nái yfir allmiklu stærra svið en áður hefur verið og verði víðtækara, og þá má gera ráð fyrir, að það verði kostnaðarsamara en verið hefur. Nú er að sjálfsögðu rétt, að gerðar séu allar skynsamlegar ráðstafanir, sem þurfa þykir, til þess að komið verði í veg fyrir slys á vinnustöðum. Hins vegar tel ég, að það sé ekki ástæða til að láta þetta opinbera eftirlit ná yfir stærra svið en þörf er á, því að vitanlega hefur það kostnað í för með sér, og jafnvel þó að ríkissjóði sé ekki beinlínis ætlað að standa undir kostnaðinum, þá hlýtur allur slíkur kostnaður að leggjast á almenning í landinn gegnum þær stofnanir, sem eiga að greiða eftirlitsgjöldin. Í brtt. sinni hefur n. lagt til m. a., að gerð verði breyt. á 1. gr. í þá átt, að undanþiggja fleira ákvæðum l. heldur en nú er í frvgr., en ég hef leyft mér að flytja till., og er það 1. brtt. mín, um það, að til viðbótar verði undanþegin vinna í skrifstofum og sölubúðum. Ég held, að óhætt sé að halda því fram, að ekki hafi verið mikið um slys við þá vinnu, enda sú vinna þannig, að það ætti ekki að vera mikil slysahætta þar, og tel ég því, að það sé vel hægt að undanþiggja þetta, skrifstofur og venjulegar sölubúðir, eigi síður en annað, sem lagt er til að verði undanþegið l. Mundu þá að sjálfsögðu þau fyrirtæki, sem þarna eiga hlut að máli, ekki þurfa að greiða gjald til eftirlitsins.

Þá er næsta brtt. mín og margar aðrar um það að fella niður úr frv. kaflann um öryggisráð. — Samkv. frv., VII. kafla þess, er gert ráð fyrir því, að ráðh. skipi 5 manna öryggisráð til 6 ára í senn, síðan eru ákvæði um það, hvernig eigi að skipa í þetta öryggisráð. Ég tel hægt að komast hjá því að setja á stofn þetta ráð, og mér finnst satt að segja, að það sé þegar nógu margt af ráðum og nefndum í voru landi og ætti heldur að athuga möguleika til þess að fækka þeim stofnunum en að bæta við, nema brýn þörf sé, en ég sé ekki, að brýn þörf sé fyrir þetta ráð. Ég skil frv. þannig, að ekki sé gert ráð fyrir því, að í þessu ráði sitji menn, sem hafi það verkefni eitt að hafa með höndum yfirstjórn þessara mála, heldur yrði þarna n. skipuð mönnum, sem hefðu önnur störf að aðalstarfi, og yrði þetta því aðeins aukavinna þeirra, sem sitja í þessu ráði, að koma saman til fundar annað veifið. Ég vil ekkert draga úr því, að það sé haft gott eftirlit með þessum málum, en ég held, að árangurinn yrði betri með því að fela eftirlitið ákveðnum mönnum, sem gera það að starfi sínu og sinna ekki öðrum verkefnum; gera þetta að sínu aðalstarfi, eins og lagt er til í frv., þar sem ákvæði eru um öryggismálastjóra og aðstoðarmenn hans. Ég tel að mestu skipti, að í þetta starf veljist menn vel hæfir til starfs, sem leggi í það sína vinnu án þess að fást við önnur viðfangsefni. Ég hef því gert allmargar brtt. við frv. um að fella niður úr því öll ákvæði um öryggisráð.

Þá er hér 7. brtt. mín, við 12. gr. frv. 1. liður er í samræmi við 1. brtt., að fella úr frv. það, sem stendur í upphafi 12. gr., að l. þessi nái yfir verzlunarstaði og skrifstofur. Síðan er brtt. við 10. tölul. 12. gr., en þessi 10. liður er um búningsherbergi o. fl., en allur er III. kaflinn um sérstakar reglur varðandi ráðstafanir til verndar heilbrigði og velferð verkamanna. Sýnist mér, að þar sé víða um óþarfa málalengingar að ræða og hefði verið hægt að komast af með styttra mál. N. leggur til, að gerðar verði breyt. á einstökum liðum. Ég legg til, að 10. tölul. verði í fyrsta lagi orðaður um. Hann er langt mál. Ég tel, að það sé hægt að koma þessu fyrir í styttra máli, og legg til, að liðurinn verði orðaður þannig: „Fatageymsla: Þegar vinnu er þannig háttað, að nauðsynlegt er að hafa fataskipti áður en vinna hefst og að henni lokinni, skal verkamönnum veitt viðunandi aðstaða til þess, m. a. að því leyti, að hægt sé að geyma fatnaðinn svo að vel fari.“ — Með þessu tel ég, að það sé sagt, sem segja þarf viðvíkjandi fatageymslu í verksmiðjum og á vinnustöðum.

Í 11. tölul. 12. gr. er tekið fram, að þegar svo stendur á, megi krefjast þess, að vinnuveitandi láti vinnuföt í té. Mér virðist, að þetta ákvæði eigi ekki þarna heima. Með því er ég ekki að leggja dóm á, hver eigi að bera kostnaðinn af vinnufötum og hreinsun þeirra. En ef álitið er rétt, að vinnuveitendur geri það, þá á það að vera samningsmál milli viðkomandi aðila. Hitt get ég ekki fallizt á, að slík ákvæði eigi erindi í löggjöf um öryggisráðstafanir á vinnustöðum. Ég legg því til, að liðurinn sé orðaður þannig, að verkamenn skuli vera í vinnufötum, er vel henta fyrir vinnuna.

Þá er næsta brtt., sem ég hef gert, og er hún við 13. gr. Hún er um húsnæði, hvernig það eigi að vera, þegar vinnuveitandi á að sjá verkamönnum fyrir því. Ég tel sum þau ákvæði vafasöm, enda hefur n. lagt til, að einn málsl. verði felldur niður, vegna þess að hann getur ekki staðizt, en ég tel ástæðu til að gera viðtækari breyt., þó ekki efnisbreyt., heldur aðeins að koma ákvæðunum fyrir í styttra máli. Auk þess er sumt fleira í gr., sem vafasamt er, að geti staðizt. Ég legg því til, að gr. orðist svo:

„Eigi vinnuveitandi að sjá verkamönnum fyrir húsnæði, skal það vera nægilega rúmgott og vandað, að dómi öryggismálastjóra.“ Þá er það á hans valdi að kveða á um það, hvað viðunandi sé.

Næst er 12. brtt. mín, við V. kafla. Hann er 3 greinar. Er hann um lágmarkshvíldartíma og fleira. Ég lít svo á, að hann eigi ekki að vera í þessari löggjöf. Það eru ýmis ákvæði í honum, sem munu almennt vera sett í samninga milli verkamanna og vinnuveitenda og er eðlilegt, að verði áfram samningsmál þeirra á milli, eins og um matar- og kaffihlé, sem alls staðar er ákveðið í samningum. Ég tel það eðlilegra en að ráðh. eigi að setja ákvæði um þetta með reglugerð, eins og lagt er til í 33. gr. Auk þess tel ég hæpið, að rétt sé að setja í þessi l. ákvæði eins og eru í 31. gr. um lágmarkshvíldartíma. Með því er ekki sagt, að ekki geti komið til greina að setja slík ákvæði í löggjöf, en það er svo yfirgripsmikið mál, að ég tel, að það eigi þá að gera með sérstakri löggjöf, en ekki í þetta frv. Í 31. gr. er ákveðið, að sérhver verkamaður skuli njóta hvíldar eigi skemur en 8 stundir samfellt á sólarhring. Það mun vera til ákvæði í l. svipað þessu. Það er um hvíldartíma sjómanna, gamalt ákvæði. Þar eru líka 8 tímar. Þessi löggjöf hefur verið mjög umtöluð á þessu þingi, og liggja nú fyrir tvö frv. um að hækka þetta upp í 12 stundir. Ég er nokkuð hissa á, að menn, sem hafa lýst yfir vilja sínum, að þeir vilji breyta til á þennan hátt, skuli telja rétt að setja inn í þessa löggjöf ákvæði um hvíldartíma, sem sé átta stundir að lágmarki. Mér virðist þetta ósamræmi. En hvað sem um það er, þá er það þannig, að ég tel, að það sé ekki rétt að setja þessi ákvæði inn í þetta frv., heldur sé það mál, sem þurfi nánari athugunar við, því sé þannig varið.

19. brtt. er við 43. gr. og er ekki stórvægileg. Ég legg til, að 1. málsgr. verði orðuð öðruvísi en gert er í frv. Frv. segir, að það skuli gera útdrátt úr l. og reglugerðum, sem settar verða samkv. þeim, og skuli þær festar upp á vinnustað o. s. frv. Ég vil aðeins orða það svo, að öryggismálastjóri geri útdrátt úr þessum lögum og reglugerðum og verkamönnum sé gert auðvelt að kynna sér efni þeirra.

Þá er 21. brtt. Hún er við 45. gr. Í upphafi hennar segir, að í hverju fyrirtæki, þar sem fimm verkamenn eða fleiri vinna að staðaldri, skuli þeir velja sér trúnaðarmann, er viðurkenndur sé af vinnuveitanda. Ég legg til í minni brtt., að þetta verði orðað svo, að verkamönnum sé heimilt að velja sér trúnaðarmann, en ekki gert að skyldu. Það ætti að koma að sama gagni fyrir verkamenn. Þeir hafa það þá á sinn valdi að hafa trúnaðarmann.

Ég hef þá gert grein fyrir þessum brtt. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þær meir, nema sérstakt tilefni gefist til.