24.11.1950
Neðri deild: 27. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í C-deild Alþingistíðinda. (3128)

26. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Frsm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. V-Húnv. hóf mál sitt á því, að þetta frv. væri að vísu flutt af mér, en ég hefði hins vegar ekki samið það. Þó að ég telji þetta ekki skipta verulegu máli, þá er það að vísu rétt, að ég hef ekki samið frv., en að ég flyt það, er vegna þess, að það var fyrir minn tilverknað, að skipuð var n. til að semja frv., og hafði ég áhuga fyrir, að hennar árangur kæmi að gagni. Ég vil aðeins láta þetta koma fram út af orðum hv. þm.

Annars lýsti ég í minni fyrri ræðu fyrir hönd meiri hl. n., að ég ætla, að brtt., sem hér lágu fyrir, væru tvenns konar, annars vegar þær, sem n. var sammála um, en hins vegar þær, sem hv. þm. V-Húnv. ber hér fram á þskj. 153, sem ekki kom fram, að ættu verulegan stuðning í n. Það eru þess vegna hans brtt., sem hér koma fram, eins og þær raunar bera með sér. Þessar brtt. hans ganga allar lengra en n. gat sætt sig við að fylgja honum eftir með. Ég skaf leyfa mér að fara nokkrum orðum um þær, a. m. k. þær, sem máli skipta. Auðvitað getur alltaf orkað tvímælis, hvað langt skuli fara. Mér skilst þó, að hv. flm. þessara brtt. vilji ekki setja fótinn fyrir þann megintilgang, að öryggisráðstafanir verði auknar. Hans brtt. ber þá að skilja þannig, að hann telji óþörf þau ákvæði, sem hann vill nema burt, vegna þess að tilgangurinn náist að mestu eða öllu leyti, þó að hans brtt. yrðu samþ. Það kann líka að mega segja um þær sumar, en áreiðanlega ekki allar.

Fyrsta brtt. hans er um að láta l. ekki ná til verzlunar- og skrifstofuhúsa. Það er út af fyrir sig ekki ástæða til, að önnur ákvæði gildi um öryggi þess fólks en annars vinnandi fólks. Hitt er rétt, að í flestum tilfellum er það ekki í eins mikilli hættu og margir, sem aðra vinnu stunda, svo að það má kannske segja, að rétt gæti verið að undanskilja þennan atvinnurekstur að einhverju leyti. En ég ætla, að það komi af sjálfu sér, þar sem engar slíkar vélar eru um hönd hafðar. Mér sýnist því, að þetta mætti vel standa í frv., því að vel getur þetta fólk þurft að njóta öryggisráðstafana ekki síður en aðrir. Auk þess gilda sérstakar reglur um sumt búðarfólk, t. d. afgreiðslufólk í matvörubúðum. Ég held því, að það væri æskilegt, að þetta mætti standa í frv., en ekki fellt úr því, þó að ég geri það ekki að kappsmáli. Hv. þm. segir, að með þessu verði verzlanir og skrifstofur gjaldskyld til eftirlitsins, sem ekki mundi annars vera. Virtist mér það vera nokkur ástæða fyrir að vilja má þetta burt. Ég býst við, að þetta gjald mundi vera svo hverfandi lítið, að það muni engan draga, a. m. k. að það mundi ekki koma á almenning, nema þá í mjög fáum tilfellum.

Þá er næsta atriði, sem hann vill gera brtt. um. Það er á þá leið, að hann vill leggja niður öryggisráð. Meginið af brtt. hans er afleiðing af því, af þeirri till. hans, að öryggisráðið verði alveg lagt niður. Í frv. er gert ráð fyrir, að tilnefndir séu tveir menn af hálfu sveina og tveir af hálfu iðnrekenda ásamt einum manni, tilnefndum af ríkisstj., til þess að hafa umsjón með framkvæmd l. Ef þetta starf verður rækt vel, eins og til er stofnað, þá held ég, að það sé aukin trygging að því. Ég get líka getið þess í þessu sambandi, að í nágrannalöndum okkar, Danmörku, Noregi og Svíþjóð, þar sem svipuð l. gilda; þar eru hliðstæð ákvæði þessu, hafa verið tekin þar upp að gefnu tilefni, og reynslan, sem það hefur gefið, hefur frekar örvað til, að þessi öryggisráð væru styrkt, en ekki úr þeim dregið. Í Danmörku eru meðlimir í öryggisráði fimm að tölu, en hefur í nýjum l., sem þar voru sett nýlega, verið fjölgað upp í 11, svo að hægt væri að taka fulltrúa frá sem flestum stéttum og starfsgreinum inn í það og gætu verið þar til tryggingar því, að l. kæmu að sem fyllstum notum. Í Noregi eru líka ákvæði, sem fara í svipaða átt, og í sænsku l. sömuleiðis. Þannig er í öllum þessum löndum gert ráð fyrir, að öryggisráð auki möguleikana fyrir því, að l. verði framkvæmd eins og til er ætlazt. Ég vil því telja hiklaust spor aftur á bak að koma í veg fyrir, að öryggisráð verði starfandi hér. Hv. þm. segir, að það sé meira en nóg af ráðum í þessu landi og mönnum, sem stunda þessi störf án þess að hafa þau að aðalstarfi. Ég játa, að það séu kannske til ráð, sem rækja störf sín ekki eins vel og til er ætlazt. En ef þau gera það, þá eru þau áreiðanlega til bóta, og það er það, sem er ætlazt til með þessum lögum.

Þá minntist hv. þm. á nokkur atriði viðvíkjandi 12. gr. og þá fyrst um fatageymslu fyrir verkamenn. Þetta er ekki stórt atriði, en ég tel þó réttara, að það sé eins og það er í frv., og sé því enga ástæðu til að gera breyt. á þessu ákvæði.

Í 11. tölulið er gert ráð fyrir, að vinnuveitandi skuli í ýmsum tilfellum láta verkamönnum vinnuföt í té. Hv. þm. telur, að slíkt ákvæði eigi ekki heima í frv. og væri þess vegna ekki rétt að setja það í þessi l. Ég vil vekja athygli hans á því, að um þetta segir svo í frvgr., með leyfi hæstv. forseta:

„Sé af heilbrigðisástæðum nauðsynlegt að nota sérstök vinnuföt, má krefjast þess, að vinnuveitandinn láti þau í té og annist hreinsun þeirra.“ Þetta ákvæði nær því aðeins til þeirra atvíka, þar sem heilbrigðisástæður krefjast sérstaks fatnaðar, og mér finnst ekki óeðlilegt, að þegar verkamanni er fyrirskipað af heilbrigðisástæðum að klæðast þessum fötum, þá séu þau látin honum í té af vinnuveitanda. Það getur verið, að verkamaður eigi illt með að útvega sér slík föt. Störf geta krafizt sérstaks útbúnaðar, sem verkamenn eiga erfitt með að útvega sér, og þá þykir rétt, að vinnuveitandi leggi þau til. Því tel ég rétt, að 11. tölul. fái að standa óbreyttur.

Þá vill hv. þm. breyta 13. gr., en hún er um húsnæði fyrir verkamenn, og er tekið fram í gr., eins og hún er, hvernig gerð slíks húsnæðis skuli vera. Það er stundum svo, því miður, að verkamönnum er kasað saman í bragga eða skála, miklu fleirum en hæfilegt er. Þess vegna þykir rétt að setja reglur um það í l., hvað skuli vera lágmarkshúsrúm fyrir hvern verkamann.

Þá minntist hann á ákvæðin um, að hengja skuli upp á vinnustað útdrátt úr þessum l. og reglugerðum, er settar verða samkv. þeim. Ég tel eðlilegt að orða þetta eins og gert er í frv., svo að verkamenn eigi greiðan aðgang að þessum l. og reglum, en eigi það ekki undir valdi neins annars, sem gæti hagað því á annan hátt, svo að verkamenn sjái ekki.

Þá er eftir aðeins það, sem er langveigamest. Hv. þm. leggur til að feila niður 5. kafla l., 31.–33. gr., um lágmarkshvíldartíma starfsmanna. Ég tel ótækt að fella þann kafla niður. Frv. setur mikið niður, ef þau ákvæði falla burt. Þessi ákvæði eru sett af tvennu, í fyrsta lagi til að tryggja mönnum hæfilega hvíld og það verður ekki sagt, að 8 tímar í sólarhring sé of mikill hvíldartími. Ég sé ekki, að í þessu eigi að felast nein sérstök hætta, sem þyrfti að gera neinar ráðstafanir til að forðast. Í öðru lagi má geta þess, að í l. eru undantekningarákvæði í ákveðnum tilfellum. Það má í vissum tilfellum hafa styttri hvíldartíma en hér ræðir um, ef sérstök skilyrði eru fyrir hendi. Mér finnst með þessu svo vægt í farið, að það megi ekki nema þessi ákvæði úr frv. Og vissulega er það ein af brýnustu lífsnauðsynjum hvers manns og til verndar heilsu hans, að hann fái hæfilega hvíld, og það getur ekki talizt um of, þó að hvíldartíminn sé ákveðinn átta stundir sem lágmark. Það er líka önnur ástæða til þessa lágmarksákvæðis um hvíldartíma manna. Hún er sú, að sumir menn stjórna stórum vélum eða tækjum, sem krefjast lifandi og vakandi athygli allan vinnutímann, og ekki aðeins stjórnandinn, heldur einnig aðrir eiga líf sitt og öryggi undir því, að ekkert beri út af. En eftir því sem þreyta færist yfir menn, sljóvgast athyglin. Á þessu hafa farið fram mjög ýtarlegar mælingar víða um heim. Þannig hefur verið sannprófað, hvernig athygli manna sljóvgast með þreytunni og dregur þá um leið úr öryggi mannsins og annarra, sem eiga öryggi sitt undir því, að þessum manni fatist ekki. Í 32. gr. er gert ráð fyrir, að bifreiðarstjórar, sem flytja fólk, og stjórnendur véla, sem mönnum getur stafað hætta af, skuli eigi hafa lengri vinnutíma en 12 stundir á sólarhring. Þetta er beinlínis sett með hliðsjón af þeirri reynslu, sem fengizt hefur í þessu efni með tilraunum, sem gerðar hafa verið erlendis. Það er ekki talið forsvaranlegt, að maður, sem þarf að starfa svo að segja stöðugt í spenningi, hafi lengri vinnutíma en 12 stundir. Við skulum taka til dæmis bílstjóra, sem stjórnar stórum bíl, sem tekur kannske 30–40 menn. Allt þetta fólk á líf sitt undir því, að maðurinn sé vel fyrir kallaður og athygli hans sé vakandi til fulls. Það má því ekki eiga það á hættu, að athygli hans sé ekki ætíð fullskörp vegna of langs vinnutíma. Ég tel það þess vegna eitt stærsta atriði frv., að það tryggi, að menn, sem við slík störf vinna, fái nauðsynlega hvíld, svo að tryggt sé, að þær vélar og þau verkfæri, sem þeir fara með og stjórna, verði hvorki þeim né öðrum að grandi.

Sé ég svo ekki ástæðu til að ræða fleiri atriði úr ræðu hv. þm. V-Húnv. Um brtt. hans get ég í stuttu máli sagt, að ég er andvígur þeim öllum, því að ég tel, að þær séu til skemmda á frv. Sumar mundu gera frv. miklum mun verra, en aðrar ekki eins mikið, en þó eru þær allar til skaða. Ég hef til samkomulags gengið inn á till. á þskj. 141, sem fluttar eru af n. í heild, þó að sumar þeirra geti orkað tvímælis, en ég sætti mig ekki við brtt. á þskj. 153, frá hv. þm. V-Húnv., því að þær miða allar að því að rýra gildi frv. og draga úr þeim æskilegu áhrifum, sem því er ætlað að hafa.