23.11.1950
Efri deild: 24. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í B-deild Alþingistíðinda. (313)

106. mál, hegningarlög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Í 2. mgr. 256. gr. hegningarlaganna, í 26. kafla, sem fjallar um auðgunarbrot, segir, með leyfi hæstv. forseta: „Ef tjón af brotinu nemur ekki yfir 50 krónur, og engin sérstök atvik auka saknæmi þess og sökunautur hefur ekki áður reynzt sekur um auðgunarbrot, skal því aðeins opinbert mál höfðað, að sá krefjist þess, sem misgert var við.“ En annars er reglan sú, að ákæruvaldinu ber að höfða mál, þó að engin krafa hafi komið fram. Frá því að hegningarlögin voru sett, 1940, hefur átt sér stað mikil breyting á verðgildi peninga, en þetta ákvæði hefur haldizt óbreytt. Þetta hefur orðið til þess, að skylt hefur verið að höfða mál út af smávægilegum sökum. Það þykir því full ástæða til að breyta þessu ákvæði og setja nýtt takmark, og má deila um, hve hátt það eigi að vera, en okkur þótti réttast að miða við 500 kr., þó að verðgildi peninga hafi að sjálfsögðu ekki rýrnað svo mikið, en það er auðvitað alltaf álitamál, hvar setja skuli takmarkið, en það þótti eðlilegast að miða við þetta. Hér er því einungis um að ræða samræmingu við megintilgang hinna upphaflegu laga. Ég vil svo óska, að frv. þessu verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og allshn.