08.12.1950
Neðri deild: 34. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í C-deild Alþingistíðinda. (3146)

26. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það er eitt atriði í brtt. frá hv. 5. þm. Reykv. í 2. brtt. hans á þskj. 292, sem ég vildi vekja athygli á. Þar stendur í síðari málsgr.: „Í fiskiðjuverum, frystihúsum og rafstöðvum skulu eingöngu vera við vélgæzlu menn sem hafa öðlazt vélstjóraréttindi“ o. s. frv. Ég held, að þarna væri heppilegra, að stæði „og rafstöðvum til almenningsnota.“ Margir hafa á undanförnum árum komið sér um einkarafstöðvum, og það mundi skapa allmikil óþægindi, ef þeir ættu allir að ná sér í vélstjóraréttindi til þess að mega hafa eftirlit með þeim. Ég held því, að það væri heppilegt að skjóta þarna inn á eftir „til almenningsnota“ eða einhverju, sem undanskildi slíkar rafstöðvar þessu ákvæði.