12.02.1951
Efri deild: 67. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í C-deild Alþingistíðinda. (3175)

109. mál, erfðalög

Frsm. meiri hl. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Allshn. hefur ekki getað orðið samferða í afgreiðslu þessa máls. Meiri hl. n., hv. 8. þm. Reykv. (RÞ), hv. 1. þm. N-M. (PZ) og ég, hefur lagt til, að frv. verði fellt. Ég sé, að í dag hefur verið lagt fram nál. frá minni hl. n., hv. 4. þm. Reykv. (HG), en mér skilst, að ekki sé komið nál. frá hv. 1. landsk. þm. (BrB).

Árið 1949 voru samþ. hér á Alþ. breyt. á erfðalögum, og var þá takmarkaður allmikið erfðaréttur útarfa. Nú hefur hv. þm. Barð. komið fram með frv., þar sem ætlazt er til, að gerðar séu enn þá meiri breyt. á þessu, enn þá fleiri erfingjar útilokaðir, auk þess sem hann leggur til, að ráðstöfunarréttur þeirra manna, sem eiga ekki niðja eða skylduerfingja, sé takmarkaður eins mikið og réttur manna, sem eiga skylduerfingja, og skuli Tryggingastofnun ríkisins, hafi ég skilið það rétt, vera skylduerfingi þeirra manna, sem eiga ekki afkomendur, þannig að þeir megi ekki ráðstafa nema ¼ eigna sinna eftir sinn dag. — Ástæður þær, sem hv. flm. færir fyrir þessu, eru þær, að áður fyrr hafi farið saman framfærsluskylda og erfðaréttur og þar sem framfærsluskylda hafi nú verið takmörkuð mjög mikið og færð yfir á Tryggingastofnun ríkisins, þá sé ekki nema eðlilegt, að það sama sé gert að því er snertir erfðaréttinn. Þess er þá fyrst að geta í þessu sambandi, að þótt erfðaréttur og framfærsluskylda hafi farið saman hér eftir fornum lögum, þá er mjög langt — að minnsta kosti öld eða meira — síðan þetta var slitið úr samhengi hvort við annað. Það sem mér finnst aðallega athugavert er, að frv. gerir stórkostlega skerðingu á eignarréttinum og meiri skerðingu en ég hygg, að hv. flm. hafi gert sér grein fyrir. Á meðan við lifum í svokölluðu kapitalísku þjóðfélagi, á meðan við trúum því, að sparnaður og auðsöfnun einstaklinganna innan vissra takmarka sé þjóðfélaginu til hagsbóta, þá eigum við að reyna að hlúa að því; og ein ríkasta hvötin fyrir slíkum sparnaði er sú, að þeir geti ráðstafað fé sínu handa ættingjum og vinum eftir sinn dag og þeim, sem þeim þykir vænt um. Það er skiljanlegt, að þeir flokkar, sem hafa það á stefnuskrá sinni að takmarka sem mest athafnir og auðsöfnun einstaklinganna og gera sem flesta að leiguliðum ríkisvaldsins á einn eða annan hátt séu frv. þessu fylgjandi. En jafnvel í því sæluríki Rússlandi er mér sagt, að erfðalöggjöfin gangi ekki í sumum atriðum eins langt og hv. flm. þessa frv. vill láta gera. Ég held, að í stað þess að takmarka rétt manna til ráðstöfunar á eignum sínum eftir sinn dag, eins og lagt er til í frv., væri nær að fara eftir reglum ensks réttar, þar sem höfuðáherzla er lögð á ráðstöfunarvilja einstaklingsins sjálfs og frelsi hans til ákvarðana, jafnvel þótt hann eigi konu og börn.

N. sendi þetta frv. til umsagnar hæstaréttar, enn fremur til lagadeildar háskólans og þess skiptaráðanda hér á landi, sem farið hefur með flest erfðamál, sem hér hafa komið fyrir, og leggja allir þessir aðilar til, að frv. verði ekki látið ná fram að ganga. Ég sé ekki ástæðu til að lesa upp þau rök, sem þessir sérfræðingar bera fram. Það væri að endurtaka það, sem ég geri ráð fyrir að hver einasti deildarmaður hafi lesið með athygli. Af sömu ástæðu sé ég ekki ástæðu til að benda á nokkur minni háttar atriði, sem horfa til bóta í frv. eins og það er, þar sem við nm. erum algerlega á móti frv. í heild.

Eins og ég tók fram í upphafi máls míns, þá hafa þær breytingar, sem gerðar voru á erfðalögunum fyrir aðeins tveimur árum, rétt á að reyna sig, og verður að teljast rangt að gera stórkostlegar og yfirgripsmiklar breytingar á erfðaréttinum nú, sem hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för með sér. Ég skal taka dæmi. Við skulum gera ráð fyrir, að einhver maður eigi stórkostlega viðskiptastofnun, sonur hans ynni þar og byggist við að erfa hana. En svo deyr sonurinn, og þá má hann ekki ráðstafa henni til þeirra, sem hann treystir bezt og býst við, að séu hæfastir, en aftur á móti tekur svo hv. 4. þm. Reykv. við henni. Ég held nú, að enda þótt allir hafi mikla samúð með Tryggingastofnuninni, þá kynni það að breytast, ef hún yrði gerð að skylduerfingja svo og svo mikils hluta þjóðarinnar.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta, en legg til fyrir hönd meiri hl. n., að frv. verði fellt.