16.02.1951
Efri deild: 73. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í C-deild Alþingistíðinda. (3182)

109. mál, erfðalög

Frsm. meiri hl. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Flm. þessa frv. hélt hér langa ræðu í gær og var allhvassyrtur. Hann byrjaði með að ráðast harkalega að hv. allshn. fyrir afgreiðslu málsins og taldi n. hafa dregið það alveg óhæfilega. Ég vil nú leyfa mér að vekja athygli á því, að frv. var útbýtt 23. nóv. s. l. og mun hafa komið til n. þann 24., en 26. nóv. er svo málið tekið fyrir í n. og samþ. að leita álits lagadeildar Háskóla Íslands, hæstaréttar og skiptaráðanda Reykjavíkurbæjar, þar sem n. taldi þessa aðila hina helztu, sem þekkingu hefðu á þessum málum. Hæstiréttur svaraði svo 12. des., borgarfógeti 14. des. og lagadeild háskólans 23. jan. N. tók svo málið fyrir á einum fundi, svo að bókað var, og á öðrum fundi einnig, sem ég man eftir, og nál. er svo dagsett 29. jan. Hér er því aðeins um að ræða rúma tvo mánuði, og í þeim er falið jólaleyfið, og svo kemur þingið ekki saman fyrr en 10. jan. Allar ásakanir á n. fyrir drátt á afgreiðslu þessa máls eru því að minn áliti óverðskuldaðar. Þetta er líka það stórt mál, að ekki veitti af, að það fengi tíma til athugunar og þó lengri hefði verið. Hitt er svo annað mál, ef n. hefur gersamlega misskilið málið, svo að því er eins háttað og málinu fræga, sem einu sinni var og hafði tvær þungamiðjur og báðar tilbúnar. — Hv. flm. taldi þetta heyra undir heilbr.- og félmn. En hv. d. hefur sýnt með því að senda það til allshn., að hún lítur fyrst og fremst á það sem breytingu á gildandi erfðalögum. Þá ásakaði hv. flm. allshn. fyrir það, að hafa ekki leitað álits landlæknis og forstjóra Tryggingastofnunarinnar. Forstjóri trygginganna er nú í n., svo að óþarft var að senda fyrirspurnir þangað; við höfðum forstjórann við höndina, og hann gerði grein fyrir sinum skoðunum. Hvað það snertir svo að senda frv. til landlæknis, þá kom það vitanlega aldrei til mála af eðlilegum ástæðum. — Annars var meiri parturinn af ræðu hv. flm. tilfinningahjal um það að setja upp stofnanir til að bæta úr fyrir öryrkjunum í þjóðfélaginu. Og það er auðvitað síður en svo, að n. sé á móti slíkum ráðstöfunum; það er skylda þjóðfélagsins að búa sem bezt að slíkum borgurum. Hann talaði um, að það væri ánægjulegt að sjá þær miklu framkvæmdir, sem gerðar hefðu verið í þessum málum að Reykjalundi. En ætli það sé nú ekki fyrst og fremst svo ánægjulegt þar um að litast vegna þess, að þarna hefur einkaframtakið látið til sín taka og brotizt í framkvæmdum með sjálfsögðum stuðningi Alþingis og alls almennings í landinn? Vel má vera, að það gæti komið að góðum notum að hafa forstjóra trygginganna þarna til forstöðu, og vitanlega hefur það mál að koma upp stofnun fyrir öryrkja á vegum Tryggingastofnunar ríkisins ekki verið rætt að ófyrirsynju, en það var bara ekki í verkahring þessarar þingn. að undirbúa það. Það, sem fyrir liggur, er að afla til þess fjár, án þess að það sé gert með breytingum á erfðalögunum.

Hv. flm. fór nokkrum orðum um álit þeirra stofnana, sem n. hafði leitað til, tók þær á kné sér og taldi þessa aðila ekki bæra um að segja nein úrslitaorð í þessu máli. Hér er þó um að ræða þá aðila, sem mesta meðgerð hafa með þessi mál, enda gat ég ekki heyrt, að hv. flm. hnekkti einu einasta atriði í álitsgerðum þeirra, eins og hv. þm., sem allir hafa sjálfsagt lesið þær, hafa sjálfir heyrt. — Þá nefndi hv. flm. dæmi um það, að bæði í enskum rétti og hér gæti erfðarétturinn fremur leitt til ills en góðs. Þetta eru nú gömul sannindi og ný. Ég hef sjálfur nýlega t. d. haft afskipti af búi, þar sem sonurinn eyddi á 15 mánuðum fé, sem tók föður hans 15 ár að afla. Og þannig er það nú yfirleitt um lagasetningu, að erfitt er að girða fyrir, að hún geti í einstökum tilfellum verkað öfugt við tilgang sinn. — Þegar hv. flm. tók svo dæmið um ekkilinn, þá má benda á, að þar var í raun og veru um vanrækslu að ræða hjá þeim manni, þar sem hann notaði sér ekki rétt sinn til að gera erfðaskrá.

Það, sem mér finnst langsamlega mesta atriðið í þessu máli, er ekki það að svipta systkini eða systkinabörn erfðaréttinum, enda þótt það séu stór atriði og n. sé því mótfallin, heldur það að svipta menn sjálfa rétti og gera Tryggingastofnunina að skylduerfingja þeirra, sem enga niðja eiga á lífi. Þetta er stærsta árásin á eignarrétt manna, eins og réttilega er bent á í álitsskjölum umræddra stofnana, og af því má gera ráð fyrir, að menn leggi fremur en áður áherzlu á að ráðstafa eignum sínum í lifanda lífi, svo að óvíst er, hve mikill tekjustofn þetta yrði fyrir tryggingarnar. Tryggingastofnunin er auk þess, eins og hv. 11. landsk. þm. benti réttilega á, stofnun, þar sem menn kaupa sér tryggingar, en ekki nein góðgerðastofnun, þótt kerfið verki svo í fyrstu. Hv. flm. kvartaði yfir, að n. hefði ekki haft samráð við sig um þetta mál. Því er nú til að svara, að meiri hl. áleit það fjarstæðu, tveimur árum eftir að erfðalögin hafa verið sett, að gera á þeim róttækar breytingar, og hún gat ekki séð, að hér væri um neitt að semja, nema e. t. v. það atriði, að Tryggingastofnunin kæmi í staðinn fyrir ríkissjóð sem arftaki þess fjár, sem undir hann fellur nú, en þar er um svo hverfandi upphæðir að ræða, að þær kæmu að litlum sem engum notum í því sambandi.

Ég hef ekki farið hér neitt út í einstök atriði, enda væri það nær óvinnandi verk að elta ólar við það. Málið liggur líka sjálfsagt ljóst fyrir hv. þm., og ég sé því ekki ástæðu til að fjölyrða um það frekar.