16.02.1951
Efri deild: 73. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í C-deild Alþingistíðinda. (3188)

109. mál, erfðalög

Frsm. minni hl. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Út af ummælum hæstv. forseta vil ég taka það fram, að ég spurði í minni fyrstu ræðu, hvort hann sæi sér ekki fært að bera upp allar greinar frv., þótt það sé venja að telja frv. fallið, ef 1. gr. er felld. Ég vil bæta því við, að ég get ekki borið fram till. um, að 10 fyrstu gr. verði felldar niður, því að ég er samþykkur þeim efnislega. Mér skildist á hv. frsm., að hann gæti fallizt á, að ákvæði, sem eru í þrem síðustu greinum frv., yrðu samþ., og þakka ég honum fyrir þá afstöðu hans.

Mér skildist hv. 8. þm. Reykv. segja hér áðan, að hann væri samþykkur því, að arfur sá, sem ekki væri lögarfur, gengi til Tryggingastofnunar ríkisins. En hv. þm. lét þess gelið, sem furðulegt má teljast, að hann vildi ekki samþ. þetta nú, heldur binda þetta tryggingafrv. í Nd., og skil ég ekki slíkan málflutning. Annaðhvort er hv. þm. með þessu ákvæði eða á móti. Hv. 8. þm. Reykv. virðist telja það grundvallarröskun á erfðalögunum að hrófla þannig við þeim, en ég geri ráð fyrir, að hann muni brátt fá sigg í lófana, ef hann verður hér í þinginu til lengdar og sér, að ýmsum lögum er breytt á þennan hátt. En ég get ekki séð, að það sé neitt grundvallaratriði, hvort erfðafé þetta rennur til ríkissjóðs eða til Tryggingastofnunar ríkisins, og ef hv. þm. er fylgjandi meginatriði þessa frv., eins og hann hefur látið í ljós, þá vona ég, að hann sýni það með atkvæði sínu.