19.02.1951
Efri deild: 74. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í C-deild Alþingistíðinda. (3202)

109. mál, erfðalög

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég get ekki fallizt á það, sem hv. þm. Barð. sagði, að þessi dagskrártill. mín sé ekki í neinum tengslum við frv. það, sem hér liggur fyrir. Hins vegar hefði frekar mátt segja slíkt, ef svona dagskrártill. hefði verið borin fram áður en frv. var breytt, eða meðan það miðaði í raun og veru að breyt. á erfðal., en nú fjallar það ekki lengur um erfðaféð, heldur aðeins um, að það fé, sem ríkissjóður erfir, skuli renna til öryrkjahælis. Þess vegna virðist mér, að málið fjalli nú aðeins um öryrkjahæli, og þegar ríkisstj. er falið að undirbúa löggjöf um þetta efni með dagskrártill., þá er það í beinum tengslum við þetta frv. eins og það nú er orðið, en að fara að taka það fram í dagskrártill., hvaða tekna eigi að afla til rekstrar öryrkjahælis, álít ég ekki heppilegt. Þegar ríkisstj. tekur málið til meðferðar, ef dagskrártill. verður samþ., þá hefur hún að sjálfsögðu fyrir sér m. a. frv. hv. þm. Barð. með þeirri ýtarlegu grg., sem því fylgir, og önnur gögn, og leiðir til þess að standast kostnaðinn af hælinu hljóta að koma til athugunar í ríkisstj., og einmitt þær leiðir, sem hér hefur verið stungið upp á. Mér finnst nokkuð óeðlilegt, þegar máli er vísað til ríkisstj., að tiltaka fyrir fram, hvernig eigi að afla fjár til þess, enda er áreiðanlegt, að með því móti verður meiri ágreiningur um málið, og ég er ekki viss um, hvort þetta þing, sem mundi velja þessa lausn málsins með dagskrártill. minni, væri reiðubúið að samþ. það t. d., að erfðafjárskatturinn gengi til öryrkjahælisins. Ég mun því ekki ganga inn á að breyta minni dagskrártill., en auðvitað er hægt að koma með breyt. við hana, en ég hygg, að með henni verði þó talsvert meira unnið í þessu máli en með því að samþ. frv. hér í d., þar sem fyrirsjáanlegt er, að það muni daga uppi í Nd. Dagskrártill. er borin fram út af þessu frv. og er óneitanlega í fullum tengslum við það. Þetta veit ríkisstj. vitanlega, og henni verður send dagskráin með þeim ummælum, að þetta frv. hafi verið afgr. á þennan hátt, en ekki neitt annað frv.