21.11.1950
Neðri deild: 25. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í C-deild Alþingistíðinda. (3212)

96. mál, fjárhagsráð

Frsm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér liggur fyrir, er flutt af meiri hl. fjhn. og er samhljóða frv., sem flutt var á síðasta þingi, en náði þá ekki afgreiðslu. Ég tel ekki þörf að ræða þetta mál mikið fyrir hönd meiri hl. nefndarinnar, en það fjallar um, að byggja megi smáíbúðir án fjárfestingarleyfis, en ráðherra skuli ákveða stærðartakmörk þeirra með reglugerð, enn fremur að bygging verbúða og útihúsa í sveit skuli vera undanþegin fjárfestingarleyfi. Það er öllum kunnugt, að miklir erfiðleikar eru nú á um allar byggingarframkvæmdir, svo að óþarfi virðist að hafa áfram þessi ákvæði í lögum, sem sett voru, þegar allt annað viðhorf var ríkjandi í þessum efnum. Hv. minni hl. n. vildi gera breytingu á frv., og því var hann ekki meðflm. að þessu máli. Ég vil fara fram á, að frv. verði vísað til 2. umr. að þessari umr. lokinni, en þar sem það er flutt af n., virðist óþarfi að vísa því til n. En ég tel rétt, að hv. minni hl. geri grein fyrir sinni skoðun á málinu.