05.12.1950
Neðri deild: 33. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í C-deild Alþingistíðinda. (3223)

96. mál, fjárhagsráð

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um ræðu hv. 5. þm. Reykv., en þar var þó eitt atriði, sem ég vildi aðeins minnast á. Hann sagði, að það væri gott, ef einstaklingar gætu byggt smáíbúðir til að leigja þær út, og hefur þá hv. þm. haft í huga húsnæðisekluna, sem verið hefur undanfarið, einkum hér í Reykjavík. Út af þessu vil ég segja það, að ég tel ekki heppilegt að greiða fyrir slíku. Hitt mun vera heppilegra, að hjálpa sem flestum til að koma sér upp þaki yfir höfuðið, heldur en að fá húsnæði á leigu hjá öðrum, og að því miðar mín till. að gera mönnum auðveldara að fá húsnæði til eigin afnota, en hvorki til að selja né leigja. En allmikið hefur verið um slíka starfsemi á síðari árum hjá ýmsum hlutafélögum, sem stofnuð hafa verið í þessu skyni og byggt hafa íbúðir til að selja þær aftur einstaklingum. Það má að vísu deila um það, hvort heppilegt sé að hafa áfram afskipti opinberra aðila, svo sem fjárhagsráðs, af þessum málum, en meðan þau eru og stjórnarvöldin telja heppilegt, að svo sé, verður að telja eðlilegt, að fjárhagsráð taki tillit til sanngjarnra óska, t. d. frá bæjarfélögum, og ef takmarkanir verða settar, þá geri ég ráð fyrir, að þær komi sanngjarnlega og jafnt niður á alla landsmenn. En ef þetta verður frjálst eins og í frv., þá óttast ég, að það kunni að verða til framdráttar einstökum byggðarlögum eða einstaklingum á kostnað almennings.