26.02.1951
Efri deild: 77. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í C-deild Alþingistíðinda. (3251)

96. mál, fjárhagsráð

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Það er langt síðan byrjun þessara umr. fór fram hér í hv. d., og ég hef nú gleymt því, sem þá var sagt. En annars koma aðalatriðin fram í nál. á þskj. 505, að því er snertir afgreiðslu fjhn., sem um málið fjallaði hér. Þó var við þá umr. ekki sérstaklega lýst brtt. 525, sem við 2 nm. úr fjhn. leyfum okkur að flytja. Þótt við lýstum stuðningi við málsatriði, þótti okkur ástæða til að leggja til, að frv. yrði breytt.

Það er nú svo um fjárhagsráð og aðrar n., sem settar hafa verið til að hafa hömlur á viðskiptum landsmanna, að þær eru ekki vinsælar af öllum. En þegar að því kemur, að draga eigi úr valdi þessara n., verður mönnum á að segja: „Æ, haltu mér, slepptu mér!“ Það er nú svo, að með starfsemi fjárhagsráðs hefur verið lagður fjötur á ýmsar framkvæmdir, eftir því sem þótti æskilegt, en þó má sennilega segja, að stofnunin sem heild hafi fremur verið til hins betra en til hins verra. Ég er sannfærður um, að það, sem fjárhagsráð hefur gert til að ákveða fjárfestinguna, sú takmörkun, sem þar hefur verið höfð á, þótt oft hafi hún verið nokkuð misheppnuð, hefur þó orðið til þess, að í heild hefur þjóðinni notazt betur sú takmörkun á erlendum vörum, sem hægt var að flytja inn, en ella hefði orðið. Ég er sannfærður um það, hvað snertir húsabyggingar, að þá hefur dreifing efnisins verið hagfelldari fyrir áhrif fjárhagsráðs en annars hefði orðið. Ég er einnig viss um, að ýmsir smærri staðir og afskekktir staðir á landinu hafa fengið meira af efni til húsabygginga en þeir hefðu annars fengið. Nú, þegar um það er rætt að leggja niður þessa starfsemi fjárhagsráðs að meira eða minna leyti, er rétt að athuga, að tryggja verður aðstöðu þeirra, sem eru lakast settir.

Frv., eins og það liggur fyrir, gerir ráð fyrir, að leyft verði að byggja hagkvæmar smáíbúðir án fjárfestingarleyfa. Ef þetta yrði heimilað, hygg ég fyrir mitt leyti, að sá galli mundi fylgja, að þeir, sem bezt eru settir í verzlun, sætu fyrir um að byggja hagkvæmar íbúðir. Nú má segja, að ekki væri það óhóf, þótt allir fengju tækifæri til að byggja sér smáíbúðir. En spurningin er: Er nægilegt efni til þess? Ég dreg það í efa. Ég tel ekki hyggilegt að treysta á það, því að ég tel rétt að ákveða nánar, hverjir það eru, sem eiga að fá leyfi til að byggja smáíbúðir. Það þarf að gera öryggisráðstafanir varðandi þetta. Till. á þskj. 525 felur í sér slíkar fyrirsagnir. Ef það er frjálst að byggja hagkvæmar smáíbúðir samkvæmt þessu frv. og um það er ekkert annað ákvæði, mætti búast við, að þeir staðir, sem bezt eru settir, mundu sitja fyrir um þetta hagræði, og er hætt við, að ýmsir staðir, sem vantar íbúðir, yrðu út undan. Mætti þá búast við, að fleiri aðilar en þeir, sem hafa þörf fyrir íbúðir, færu að byggja til að selja íbúðirnar. Þessar byggingar yrðu aðallega þar, sem verzlað er með byggingarvörur, og þess vegna yrði mest byggt þar. Ef ekki yrði höfð sjálfsögð og eðlileg dreifing á byggingarvörum, getur farið svo, að ekki verði hægt fyrir þá, sem eru í sárustu þörf fyrir íbúðir, að byggja. Til að bæta úr þessu höfum við flm. þessarar till. lagt til, að einstaklingar, sem enga íbúð eiga, sitji fyrir um þetta efni. Ef takmarkaður verður innflutningurinn, þá mundu þeir, sem hafa versta aðstöðu, njóta hans. Þessa aðstöðu sína eiga þeir að sanna með vottorði skattanefndar eða læknis, vottorði skattanefndar um, að þeir eigi ekki íbúð, og læknis, ef þeir eiga íbúð, um, að hún sé ónothæf. Slík vottorð er ekki fyrirhafnarmikið að fá, og er ekki erfitt að framkvæma þetta. Þetta er aðalatriði brtt., og ég vonast eftir, að deildin geti fallizt á þetta, því að þetta er fullkomin sanngirni og tekur ekki neitt frá neinum, nema þá frá þeim, sem bezt eru settir, ef skortur yrði á efni. Þykist ég nú hafa gert nægilega grein fyrir, hvað vakir fyrir okkur flm. brtt., og hygg ég, að það yrði til stórra bóta, ef það kæmist til framkvæmda. Ég óttast, að það fari að öðrum kosti þannig um byggingarefnið, að Þorsteinn matgoggur, það er þeir, sem eru við dyrnar, eru næstir, þeir taki óeðlilega mikinn og stóran skerf, þegar diskurinn verður borinn fram hjá. Ef fallizt verður á brtt. okkar, þá er komið í veg fyrir þetta.