26.02.1951
Efri deild: 77. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í C-deild Alþingistíðinda. (3253)

96. mál, fjárhagsráð

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég vildi óska, að þetta mál næði fram að ganga og kæmi til framkvæmda. Ég er ekki einn um að álíta, að fjöldi hinna smæstu hefur verið mjög illa settur um að koma sér upp húsnæði, sem er þá miðað við, að hjón með einhverja fjölskyldu geti notazt við það. En sá ágalli er, að ákvæðum fjárfestingarlaganna hefur verið beitt alveg skefjalaust. Ég hygg, að fyllsta nauðsyn sé á að losa menn við að þurfa að eyða tíma og fjármunum í árangurslausa leit að leyfum til að fá að koma upp þaki yfir höfuðið. Í lögum um fjárhagsráð er ekki gert ráð fyrir, að þessu valdi sé þannig beitt, en ef fjárhagsráð sér fram á ótilllýðilega sóun, megi þó nota þessi ákvæði laganna. Í sambandi við annað mál hef ég í Sþ. reynt að rökstyðja, að nú á sama tíma hafa risið upp íburðarmiklar byggingar, skólar, kvikmyndahús, villur o. fl., og þá er hjákátlegt og fjarstæða að fullyrða, að það sé sóun, þó að landsmenn reyni að búa við hinn forna rétt, að hafa rétt til að eiga sitt eigið heimili. Ég hef ekki öðlazt þá sannfæringu, að það hafi verið nauðsynlegt fyrir fjárhagsráð að sigla inn á þetta svið, en ráðið hefur samt gert það.

Eins og hv. 1. landsk. þm. tók fram, þá leiðir það af sjálfu sér, — það sér hver þingreyndur maður, jafnvel hv. þm. S-Þ. og hv. 1. þm. Eyf., — að þegar brtt. er borin fram svona á elleftu stundu, verður það til þess, að málið nær ekki fram að ganga. Af þeim ástæðum get ég ekki fallizt á nokkra brtt., þótt um það megi deila, hver þörfin er. — Allt frá upphafi Íslands byggðar hefur það verið frumréttur, að fólk geti komið upp þaki yfir höfuðið. Í þennan frumrétt vil ég halda, og vil ég stuðla að því. að menn geti eignazt sinn dvalarstað. Þarf enginn að segja mér það, að það atriði steypi þessu landi á höfuðið. — Skal ég ekki orðlengja þetta að sinni. Það er kunnugt, að þetta mál er það mál, sem einna mesta athygli vekur um allt land. Þetta liggur eins og mara á þjóðinni, og alls staðar mætir maður sams konar óskum. Ekki er meiri hætta á nú, að Þorsteinn matgoggur nái í allt byggingarefni, en hefur verið allt frá því, er þetta land byggðist. Frá því er landið byggðist hefur fólk fengið að viða að sér efni til að byggja yfir sig. Þorsteinn matgoggur er ekki fæddur í dag og ekki í gær, og er ekki meiri hætta, sem stafar af honum nú en endranær. Alla tíð hafa menn fastnað sér konu, byggt upp heimili og átt börn og buru, þangað til þessar einstrengingslegu ráðstafanir fjárhagsráðs komu til sögunnar.

Nú vil ég að endingu heita á alla góða drengi í þessari deild, að þeir liti á málið frá því sjónarmiði, að þeir þyrftu allir að koma yfir sig þaki, en skorti fyrst og fremst leyfi til þess frá yfirvöldunum.