23.11.1950
Neðri deild: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í C-deild Alþingistíðinda. (3282)

103. mál, Áfengis- og tóbakseinkasala ríkisins

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Mig langar til að láta í ljós ánægju mína yfir því, að þetta frv. er fram borið, og lýsi fylgi mínu við það. Hér er tvímælalaust um rétta stefnu að ræða, og hefði verið ástæða til að gera þessar ráðstafanir fyrr. — En mig langar til að bera fram eina fyrirspurn til hæstv. fjmrh. Undir því, hvernig henni verður svarað, gæti komið, hvort ég á síðara stigi málsins bæri fram brtt. við frv. eða ekki.

Svo sem allir vita, sem verzlunarháttum eru kunnugir, er mjög algengt, að vörur séu seldar landa á milli fyrir milligöngu umboðsmanna, þ. e. erlendir seljendur óska þess að hafa umboðsmenn í landi kaupenda og greiða fyrir það ákveðin umboðslaun. Það hefur komið fram í blöðum, að tóbak og áfengi, sem til landsins er flutt, væri a. m. k. sumpart keypt um hendur innlendra umboðsmanna, sem fengju umboðslaun af þessum innflutningi. Mig langar til þess að vita, hvort þessu er þannig varið, og ef svo er, teldi ég ástæðu til að bæta inn í frv. ákvæði um, að þessar stofnanir leituðust við að kaupa umræddar vörur beint af erlendum seljendum, en ekki um hendur innlendra umboðsmanna, ef þess væri nokkur kostur, og að jafnframt væru gerðar ráðstafanir til, að ekkert væri verzlað við þau fyrirtæki, sem ekki vildu selja íslenzkri ríkisverzlun vörur sínar beint, en krefðust að hafa íslenzka umboðsmenn, að því er virðist til þess eins að hirða umboðslaunin. — Það hefur verið vikið að því í blöðum, að forstjórar eða starfsmenn þessara ríkisverzlana hefðu sjálfir umboð fyrir þær vörur, sem þær verzla með, og þægju fyrir það umboðslaun. Á þennan orðróm vil ég engan trúnað leggja. Ef hann hefði við rök að styðjast, væri hér beinlínis um misnotkun á opinberu starfi að ræða, og slíkt ætla ég ekki forstjórum eða starfsmönnum þessara stofnana. En vegna opinberra ummæla, sem hafa fram komið, er nauðsynlegt, að það sé tekið skýrt fram af hálfu hæstv. ríkisstj., að slíkt hafi ekki við rök að styðjast. Hins vegar held ég, að það eigi sér stað, að þessar umræddu vörur séu sumpart keyptar fyrir milligöngu innlendra umboðsmanna, og tel ég rétt að setja ákvæði í l., sem miðaði að því að koma í veg fyrir slíkt.