23.11.1950
Neðri deild: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í C-deild Alþingistíðinda. (3286)

103. mál, Áfengis- og tóbakseinkasala ríkisins

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Eins og ég gat um áðan, töldum við okkur í ríkisstj. hafa komizt að þeirri niðurstöðu, eftir athugun á þessu máli, að sparnaður yrði að sameiningu þessara stofnana. Hins vegar höfum við ekki viljað láta fylgja þessu frv. rekstraráætlun, af því að við erum ekki reiðubúnir til þess að ákveða í einstökum atriðum, hvernig þessu máli verður fyrir komið, og það verður að ákveðast í samráði við þann forstjóra, sem á að veita fyrirtækinu forstöðu.

Viðvíkjandi því, sem hér hefur verið minnzt á innkaup þessara stofnana, vil ég skýra frá, að það væri mjög takmarkaður gjaldeyrir, sem þær hafa yfir að ráða, og Tóbakseinkasalan hefur t. d. verið í mestu vandræðum með gjaldeyrisyfirfærslur og átt erfitt með að geta haft nægilegar vörur á boðstólum. Forstjóri hennar hefur tjáð okkur í ríkisstj., að hann hafi þess vegna tekið það ráð, sem ég tel alveg rétt, að kaupa heldur ódýrari tegundir af sígarettum, þannig að meira magn af vörunni fáist fyrir gjaldeyrinn, heldur en að kaupa dýrari tegundir, sem að vísu eru vinsælli, og láta verða sígarettulaust.