23.11.1950
Neðri deild: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í C-deild Alþingistíðinda. (3288)

103. mál, Áfengis- og tóbakseinkasala ríkisins

Viðskmrh. (Björn Ólafsson) :

Herra forseti. Að sjálfsögðu er þetta atriði, sem hv. 3. landsk. þm. var að tala um, framkvæmdaratriði þeirra stofnana, sem hér um ræðir, og forstjóra þeirra, hvernig þeir haga innkaupum í hvert skipti. En ég hygg, að sú stefna væri næsta illframkvæmanleg, ef stofnun eins og Áfengis- og tóbakseinkasalan ætlaði að afla sér umboða í þessum greinum, sem hún selur, en yrði um leið að útiloka öll önnur firmu frá að selja hér áfengi og tóbak, nema þessi firmu, sem hún gerir samninga við, og slíkt mundi verða mjög óvinsælt meðal erlendra seljenda og vafalaust verða milliríkjamál. — Ég vildi aðeins taka þetta fram til þess að sýna, að ef ríkisfyrirtæki, sem verzlar með þennan þátt innflutningsins, ætlar að velja þannig á milli eins og hv. þm. vill vera láta, mundi það ekki blessast til langframa.

Hv. þm. talaði um það, að varðandi einkasöluvörur gæti ekki verið um mikla þjónustu að ræða og enga í sambandi við áfengi, þar sem bannað væri að auglýsa áfengi. Þjónustan er í þessu tilfelli í fæstum greinum bundin við auglýsingar. Í þessu tilfelli er hún bundin við það að selja viðkomandi ríkisstofnun vörur þess firma, sem viðkomandi umboðsmaður vinnur fyrir, og það er í því, sem hagsmunir hins erlenda framleiðanda liggja, að koma vörum sínum inn hjá Áfengis- og tóbaksverzluninni. Þess vegna tel ég það vera fráleitt og óframkvæmanlegt, og það mundi koma í ljós einnig hér, að það er ekki gott fyrir ríkisstofnanir að binda viðskipti sín með umboðum við einstök firmu og útiloka önnur.