19.10.1950
Efri deild: 5. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í B-deild Alþingistíðinda. (329)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Mér þykir sanngjarnt, að fram komi ýtarlegri grg. fyrir þessu máli en ég mun flytja við þessa umr. Ég geri ráð fyrir því, að þær upplýsingar komi fram í n. þeirri, sem fjallar um þetta mál, en það verður sennilega fjhn. Mun hún þá kalla fyrir sig þá menn, sem af hálfu ríkisstj. rannsökuðu þetta mál og gerðu um það ýtarlega skýrslu, sem er það umfangsmikil, að ekki þótti eðlilegt að prenta hana með þessu frv.

Það var á s.l. sumri, að auðsætt þótti, að óvenjulegir óþurrkar herjuðu Austurland og reyndar einnig sum önnur svæði landsins. Það er talið, að slíkir óþurrkar muni ekki hafa komið nema e.t.v. einu sinni á þessari öld. Víða á þessum svæðum voru óþurrkarnir með þeim fádæmum, að ótrúlegt má telja, svo að sums staðar hafði ekki tekizt að afla svo að segja neinna heyja nú, þegar átti að taka gripi á fóður.

Ég og búnaðarmálastjóri ræddum um þetta mál. Niðurstaðan af þeim umr. varð sú, að ákveðið var að ræða þetta mál í ríkisstj., og var það gert. Þar stakk ég upp á því, að samstarfsflokkarnir í ríkisstj. tilnefndu sinn manninn hvor til að rannsaka þetta mál, og varð það niðurstaðan. Raunverulega var sá maður, sem ég átti þátt í að tilnefna, sjálfkjörinn, vegna þess að það var búnaðarmálastjórinn, sem af eðlilegum ástæðum er svo að segja sjálfkjörinn til þess að athuga þessi mál. Sjálfstfl. nefndi til af sinni hálfu Árna G. Eylands stjórnarráðsfulltrúa. Þessir menn tóku sér ferð á hendur og ræddu við bændur á óþurrkasvæðunum og öfluðu sér mjög ýtarlegra upplýsinga, að því er þeir telja, og hef ég ekki ástæðu til að draga það í efa. Þessir niðurstöður lögðu þeir síðan fyrir ríkisstj.

Það var þegar auðsætt, eftir að þessi skýrsla lá fyrir, að um tvennt var að velja: Annaðhvort varð ríkisstj. að hlaupa undir bagga eða stórkostlegur niðurskurður hlaut að verða á búpeningi, ekki aðeins í sveitunum, heldur einnig í þeim mörgu tugum sjávarþorpa á þessu svæði, þar sem sjómenn og verkamenn lifa jöfnum höndum á landbúnaði og sjávarútvegi, því að það skal tekið fram í þessu sambandi, eins og skýrslurnar líka bera með sér, að ekki lítill hluti af þessari hjálp fer einmitt til þess að styrkja fólk í sjávarþorpunum, sem eru mjög mörg einmitt á þessu svæði. Það er bersýnilegt, að eftir stórfelldan niðurskurð hefði talsverður hluti af þeim, sem þar búa, flosnað upp, því að bú manna á þessu svæði eru svo lítil, einhver þau minnstu á Íslandi, að bændur þar þola ekki neina minnkun á bústofni sínum, einkanlega þó vegna þess, að einmitt á þessu svæði voru harðindin 1949 einna mest og svo geigvænleg, að fátítt er.

Eftir að þessi rannsókn lá fyrir, var ríkisstj. á einu máli um að velja þá leið, sem ég er ekki í vafa um, að hyggilegust er, að hjálpa þessum mönnum til sjálfsbjargar og reyna að koma í veg fyrir verulega fækkun á bústofninum, og það er gert m.a. með þeim hætti, sem fram kemur í frv. Niðurstaðan varð því sú að hjálpa þeim, sem höfðu 20% rýrnun eða meira frá meðalheyskap, og er þá ekki tekið tillit til þess, að sá heyfengur, sem menn hafa getað aflað, er stórkostlega skemmdur, svo að hann er alls ekki 80% af venjulegum heyfeng, en þeir, sem hafa orðið fyrir minna tjóni en reiknað eftir þessum reglum, fá enga hjálp.

Ég tel rétt að taka fram þegar við 1. umr. þessa máls, að ég hygg, að fáir muni bera á móti því, að eðlilegt hafi verið að veita þessa hjálp, en ummæli hafa komið fram um það, að óeðlilegt hafi verið að skipa þá menn, sem til þess voru kvaddir að rannsaka þessi mál, þar sem annar þeirra er fulltrúi fyrir það hérað, sem mestrar aðstoðar þarf við í þessu sambandi, en hinn var frambjóðandi í sama kjördæmi. Eins og ég sagði áðan, var það sjálfsagt, að búnaðarmálastjóri starfaði að þessum málum, og útilokað að láta hann víkja frá því starfi fyrir það, að hann er þm. fyrir eitt af þeim kjördæmum, sem hér eiga hlut að máli, og ég fullyrði, að sá maður, sem Sjálfstfl. kvaddi til þessarar rannsóknar, er vel valinn til þessa starfs, og það er einu sinni svo, sem betur fer, að margir menn eru svo gerðir, að þótt þeir eigi að rannsaka mál, sem snertir hag m.a. þeirra, sem þeir eru að einhverju leyti umbjóðendur fyrir, þá rannsaka þeir málin ekki siður gaumgæfilega fyrir það og kannske aldrei með meiri samvizkusemi en þegar svona stendur á, og mín athugun á þeirri vinnu, sem þar hefur verið gerð, hefur sannfært mig um það, að með þeim hætti hefur verið að þessum málum unnið. Því miður er það líka þannig, að þessi hjálp, sem hér er veitt, er ekki svo mikil sem vera þyrfti vegna þess, að vetur lagðist óvenjulega fljótt að, svo að bersýnilegt er, að bændur geta ekki treyst á það, að þessi hjálp komi að öllu leyti að því liði, sem þeir töldu ástæðu til að treysta fyrir nokkru síðan, því að vetur hefur lagzt svo snemma að, að þeir hafa orðið að taka upp slátrun á ný víða og voru þó áður búnir að fækka meira en venjulegt er, áður en hin endurtekna fækkun átti sér stað nú.

Liðsemd sú, sem veitt er, er á þann hátt, að 2/3 af hjálpinni er veitt sem lán, en 1/3 óafturkræf aðstoð, eða þar um bil. Þessi lán og aðstoð er veitt í samræmi við þá skýrslu, sem þessir tveir nm. hafa gert og byggð er á rannsókn þeirra. Er tilhögunin þannig, að þessi lán og óafturkræfa aðstoð verður veitt í samræmi við þessa skýrslu til hreppanna, en síðan á hver hreppsnefnd að sjá um skiptinguna í sinni sveit, en það er gert ráð fyrir, að Búnaðarbankinn hlaupi undir bagga og veiti þessi lán, og er raunar frá því gengið, ef ekki koma einhver óvenjuleg atvik fyrir, sem kæmu í veg fyrir það.

Ég ætla svo ekki að orðlengja meir um þetta mál. Það verður að sjálfsögðu athugað í n., og verða þeir menn, sem rannsóknina hafa framkvæmt, kallaðir fyrir nefndina til að gefa ýtarlegri skýrslu um allar aðstæður.

Ég óska svo, að málinu verði vísað til 2. umr., og tel eðlilegast, að það fari til fjhn.