30.10.1950
Efri deild: 11. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í C-deild Alþingistíðinda. (3291)

48. mál, hitaveitur utan Reykjavíkur

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Frv. það á þskj. 82, sem hér er lagt fram, er samið af félmrn., þar sem full ástæða er til að setja lög um þetta efni. Til þessa hafa aðeins komið til framkvæmda lög um hitaveitu Reykjavíkur, enda er hún sú eina hitaveita, sem hefur starfað um nokkurt skeið. En nú er farið að starfrækja hitaveitur a. m. k. á tveimur öðrum stöðum á landinu og í undirbúningi á nokkrum stöðum öðrum og því full ástæða til, að sett sé löggjöf um þetta efni.

Það gat komið til álita, hvort bæri að láta löggjöf um þetta efni ná yfir allar hitaveitur eða aðeins hitaveitur utan Reykjavíkur. Var horfið að því ráði, að hún tæki aðeins yfir hitaveitur utan Reykjavíkur, þar sem löggjöf er þegar í gildi um hana, sem yrði jafnframt notuð til hliðsjónar við samningu þessarar löggjafar.

Meginefni þessara laga er, að sveitarstjórnir skuli hafa einkarétt til byggingar hitaveitna, eins og ákveðið hefur verið í lögum um hitaveitu Reykjavíkur frá 1940, og er þó þessi réttur framseljanlegur, og eru í lögum þessum ýmis ákvæði, sem talið er að geti gilt almennt, ef til framkvæmda kemur.

Þar sem hér er um frumsmíð að ræða, má vænta breytinga og lagfæringa, og er ég fús til samstarfs við þá nefnd, sem um málið fjallar.

Ég tel fulla ástæðu til að ætla, að þetta þing afgreiði lög um þetta efni, og vonast til, að þessu máli verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.