31.10.1950
Efri deild: 12. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í C-deild Alþingistíðinda. (3296)

52. mál, fræðsla barna

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti.

Það eru nú í smíðum í landinu skólahús, sem áætluð eru að verðmæti um 89 millj. kr. Þessi skólahús eru flest nokkuð langt á veg komin. En nú upp á síðkastið hefur borið á því, að miklir erfiðleikar hafa verið á því að koma þessum húsum áfram og á að fullgera þau vegna fjárskorts. Er það sérstaklega vegna þess, að ríkissjóður hefur ekki getað staðið við sinn hluta af því fjárframlagi, sem fræðslulögin gera ráð fyrir. Skuldir ríkissjóðs við skólana, sem nú eru í vanskilum, eru þannig, að ríkissjóður á nú ógreitt 1. júlí þessa árs, þegar frá hefur verið dregið framlag ríkissjóðs í fjárl. þessa árs, vegna barnaskólanna 6.1 millj. kr., vegna gagnfræðaskólanna 2.7 millj. og vegna húsmæðraskólanna 0.8 millj. kr. eftir bráðabirgðauppgjöri, sem fram hefur farið þessa dagana. Það er samtals 9.6 millj. kr., sem ríkissjóður hefur ekki getað innt af hendi þrátt fyrir ákvæði laganna í þessu efni. — Af þeim skólabyggingum, sem nú eru í smíðum og áætlað er, að muni kosta 89 millj. kr., þá er áfallinn kostnaður 64 millj. kr. Það er þá eftir að leggja fram í þessi skólahús samtals, barnaskóla, gagnfræðaskóla og húsmæðraskóla, 25 millj. kr. Af þessu er talið að ríkissjóður skuldi um 15 millj. kr. — M. ö. o., til þess að fullgera þau skólahús, sem nú eru í smíðum fyrir þessa áminnztu skóla í landinu, þarf ríkissjóður að leggja fram um 15 millj. kr., auk þeirra 9.6 millj. kr., sem hann skuldar nú, þannig að skuld ríkissjóðs er eftir eitt eða tvö ár komin upp í 25 millj. kr., að frádregnum að sjálfsögðu þeim framlögum, sem Alþ. kann að ákveða hverju sinni samkv. fjárl.

Það er alveg greinilegt, að svona geta þessi mál ekki gengið. Það virðist hafa verið litið svo á samkvæmt fræðslulögunum frá 1946, að ekki þyrfti að bíða framlags Alþ. til slíkra skólabygginga til þess að hefjast handa. Þess vegna hefur líka verið hafizt handa um skólabyggingar af þessu tagi víða um land, sem kosta stórfé, án þess að tryggt væri, að Alþ. gerði sér ljósa grein fyrir því, hvaða fjárútlát fylgdu þeim skólabyggingum næstu ár, sem þegar er hafizt handa um að byggja. Þetta öngþveiti má ekki endurtaka sig í framtíðinni. Þess vegna tel ég, að það sé nauðsynlegt í sambandi við það að hefjast handa um framkvæmdir þeirra, að það sé bundið því skilyrði, að fé hafi verið áætlað til þess á fjárl. að framkvæma byggingarnar, sem um er að ræða, og að Alþ. hafi gert sér grein fyrir því, hvernig ætti undir kostnaði við þessar skólabyggingar að standa, sem heimilað væri að byrja á. Ég sé ekki, að það sé nein önnur örugg leið til þess að koma í veg fyrir það í framtíðinni, að svona öngþveiti myndist. — Svo verður ekki hjá því komizt, vegna héraða og sveita, sem hér eiga hlut að máli og eru í mjög miklum fjárkröggum í sambandi við byggingar þessara skólahúsa, að Alþ. geri sér einhverja grein fyrir því, hvernig og á hve löngum tíma þessar fjárhæðir eigi að greiðast, sem nú hafa verið lagðar fram í tilkostnað við þessi hús, og þá sérstaklega þessi skuld ríkissjóðs, sem nú er nærri 10 millj. kr. Og ef líkt væri farið að og síðustu tvö árin hefur gert verið, mundi það taka 5 ár fyrir ríkissjóðinn að komast út úr þeim skuldum, sem áfallnar voru á miðju þessu ári, — auk þeirra skulda, sem myndaðar yrðu á næstu tveimur árum, ef þessi hús væru fullgerð, en það er áætlað 15 millj. kr. í viðbót.

Það verður ekki hjá því komizt vegna héraðanna og sveitanna, að þessum málum verði gerð einhver skil og að þau geti fengið einhverja vitneskju um það, hverju þau eiga von á í þessu efni á næstunni, þannig að þau geti þá a. m. k. samið við sína kreditora um skuldir, með vissu um það, hvenær þau geti greitt þetta. Þess vegna er nú þetta frv. til komið. Og ég er sannfærður um, að það er eina rétta leiðin, til þess að ekki stefni í sama öngþveitið og nú er. — Ég vil að svo mæltu mælast til þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og menntmn.