31.10.1950
Efri deild: 12. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í C-deild Alþingistíðinda. (3301)

52. mál, fræðsla barna

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Í sambandi við það, sem hv. 2. þm. Árn. sagði um það, í hvaða n. mál þetta ætti að fara, vil ég taka það fram, að öll framkvæmd fræðslulaganna er í raun og veru fjárhagsmál, og hin fjárhagslega hlið og menntunarhliðin verða ekki aðskildar. En eins og hv. þm. Barð. sagði, þá hafa þessi mál alltaf verið í menntmn., og held ég, að eðlilegast sé, að svo verði áfram, þó að málið sé mikið fjárhagsmál og veiti á tugum milljóna. — Ég er sammála hæstv. dómsmrh. í því, að þegar komi til skipta á fé til nýrra skólabygginga, þá sé heppilegast, að fjvn. hafi með þau skipti að gera, en ég held varla, að undir þessa lagabreytingu heyri skipti á fé til skóla, sem eru nú í byggingu, og væri heppilegast, að fræðslumálastjóri og menntmrh. hefðu þau skipti með höndum, enda þekkja þeir manna bezt til þessara mála. Annars er ég í vafa um, hvort stefnt sé í rétta átt með því að fela fjvn. að skipta niður fé til skólabygginga, fremur en fræðslumálastjóra og menntmrh., sem eru manna dómbærastir um, hvar þörfin sé mest og hve stórt eigi að byggja á hverjum stað, og ég held, að fjvn. yrði að gera sér verulegt ómak við að setja sig inn í þessi mál, að hún verði dómbærari um þau á hverjum tíma en fræðslumálastjóri og menntmrh. Í þessu sambandi má minna á það, að oft orkar tvímælis um, hve réttlátlega er skipt því fé, sem varið er til vegamála, og væri vegamálastjóri sennilega dómbærastur um þau efni. Ég veit því alls ekki, hvort hér er stefnt í rétta átt með frv. þessu, en það verður að koma í veg fyrir, að stofnað sé til skólabygginga, nema tryggt sé, að ríkið geti greitt sinn hluta, og ekki sé stofnað til skulda á ríkið upp á tugi milljóna, eins og nú á sér stað og hæstv. menntmrh. sagði að mundu nema um hálfum þriðja tug milljóna.

Þá er það fullyrðing hv. þm. Barð., að kennsluskylda barnakennara væri 36 stundir á viku, en gagnfræðaskólakennara 30 stundir, og er þetta rétt hjá honum, en þess ber að gæta í þessu sambandi, að hver kennslustund í barnaskólunum er 40 mínútur, en 45 í gagnfræðaskólunum. Ef kennt er sex stundir á dag, sést, að gagnfræðaskólakennarinn kennir aðeins hálfri klukkustund skemur á dag en barnaskólakennarinn, ef miðað er við sama mínútnafjölda. Munurinn er því alls ekki 6 stundir á viku, eins og hv. þm. hélt fram, heldur 3 stundir. En í hverju liggur það, að talið er réttlætanlegt, að kennarar við gagnfræðaskólastigið hafi skemmri vinnudag en barnakennarar? Það liggur í því, að þeir hafa meiri heimavinnu við leiðréttingu verkefna. Það sjá allir, að slíkar leiðréttingar eru mun meiri í gagnfræðaskólum en í barnaskólum og vaxa eftir því, sem ofar dregur í skólunum. Að vísu er þeim kennurum, sem mesta hafa heimavinnu, svo sem íslenzkukennurum, greitt eitthvað fyrir það, en það mun einkum tíðkast hér í Reykjavík, en víða um land mun alls ekkert tillit tekið til þessarar aukavinnu. Í þessari heimavinnu liggur því áreiðanlega meira en 30 mínútna vinna á dag, og ég held, að vinnudagurinn í gagnfræðaskólunum sé lengri, en ekki styttri en í barnaskólunum, sé kennarinn á annað borð samvizkusamur um starf sitt. Hæstv. menntmrh. upplýsti, að þessu væri svipað háttað á hinum Norðurlöndunum. Þetta byggist því ekki á því, að gert sé ráð fyrir, að kennarar við gagnfræðaskóla hafi styttri vinnutíma en barnakennarar, heldur á því, að gert er ráð fyrir, að heimavinna kennara við leiðréttingar aukist eftir því, sem nemendurnir þroskast. Þá spurði hv. þm. Barð., hvort ekki væri krafizt húsaleigu af nemendum í heimavist, og held ég, að þeir hafi alltaf verið krafðir um visst gjald. Það kann að hafa verið lágt og líklega haft svipað fyrirkomulag á því og um húsaleigu embættismanna, sem er mun lægri en svarar kostnaði við að koma upp íbúðunum fyrir þá. En meðan því er ekki breytt, má telja eðlilegt, að ekki sé krafizt hárrar húsaleigu af námsfólki, því að þar er líklegast oftast lítil greiðslugeta. En ef til vill hefur hæstv. menntmrh. gefið út reglugerð um, að sama gjalds skuli alls staðar krafizt fyrir húsaleigu í heimavistum, og er þar stefnt í rétta átt. En mín skoðun er sú, að stilla beri þessu gjaldi mjög í hóf. — Ég tel, að ég hafi gefið fullnægjandi skýringar á þeim mismun, sem er á kennslustundafjölda hjá gagnfræðaskólakennurum og barnaskólakennurum, en hann liggur í því, að hver stund í barnaskóla er 40 mínútur, en 45 mínútur í gagnfræðaskólum, og að öðru leyti er mismunurinn fullskýrður með meiri heimavinnu kennara í gagnfræðaskólum en barnaskólum.