31.10.1950
Efri deild: 12. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í C-deild Alþingistíðinda. (3302)

52. mál, fræðsla barna

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Eins og ég tók fram í fyrri ræðu minni, þá er ég fylgjandi frv., eins og það liggur hér fyrir, og tel breytinguna nauðsynlega og eðlilega. En út af ummælum þeim, sem hér hafa fallið um skiptingu fjárins, þá vil ég segja þetta: Í 1. gr. frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisframlagið er bundið því skilyrði, að fé hafi verið veitt á fjárlögum til sérhvers skólahúss, áður en hafizt er handa um bygginguna.“ Nú hefur það verið viðurkennt af þeim hæstv. menntmrh. og hæstv. dómsmrh., að ef þetta verði að l., þá verði að skipta fénu og ákveða framlag til hvers húss í nýbyggingu. Nú á ekki fjvn., heldur Alþ. í heild að skipta fénu. Orð mín ber ekki að skilja svo, að ég óski eftir að fá þetta í fjvn. Hún getur alltaf gert till. um þetta, óski hún þess. En út af því, sem hæstv. dómsmrh. sagði, að þetta ákvæði ætti aðeins að ná til þess fjár, sem úthlutað væri til nýbygginga, þá vil ég spyrja, hvaða trygging sé fyrir því, að þetta fé sé ekki notað til nýbygginga, heldur til greiðslu gamalla skulda, nema slíkt sé tekið fram í l. Ef Reykjavíkurbær, sem á nú orðið mikið fé hjá ríkissjóði, þarf að halda áfram að byggja, þá getur hann byggt fyrir þetta fé og þannig haldið áfram fjárfestingu. Og þó að hér verði veitt fé til Laugarvatnsskóla til greiðslu gamalla skulda, þá væri hægt að hefja fyrir það nýbyggingu og skapa þannig nýjar kröfur á ríkissjóð. Það verður því að taka þetta allt skýrt fram, því að það kann að vera hægt að semja um greiðslu á skuldum og verja svo því fé, sem fara átti til greiðslu þeirra, í nýja fjárfestingu.

Hæstv. ráðh. sagði, að ekki væri hægt að rjúka til og breyta einstökum atriðum í þessum umfangsmiklu lögum, nema með mikilli athugun. Ég er honum sammála í því, en höfum við ekki þegar fengið nægilega reynslu í sumum greinum? Ég álit ekki eðlilegt, að þessum embættismönnum sé fremur ívilnað og eftir gefið en öðrum, — og því minni ástæða til þess, að þeir njóti sérstakra fríðinda um leyfi frá embætti, þar sem þeir hafa lengra sumarleyfi en nokkur stétt önnur; en kennarar hafa frí í þrjá mánuði á sumri hverju á fullum launum. Er nokkur nauðsyn að hafa þetta ákvæði í lögunum, að þessir menn skuli einnig fá þessa ívilnun, eða frí í heilt ár eftir 10 ára þjónustu? Getur ekki ríkissjóður hæglega sparað þetta? Ég var á móti þessu atriði, þegar l. voru sett, og ég er enn á móti því. Ég álít, að það sé ekki ástæða fyrir ríkissjóðinn að halda þessu ákvæði. Löggjöfin sjálf þarf ekkert að umturnast, þótt því yrði breytt. Ef ríkissjóður er þannig staddur, að hann geti leyft sér slíkt, þá er það náttúrlega gott og blessað. En nú er það ekki svo, og þetta er heldur ekki einangrað atriði, því að aðrir koma á eftir og krefjast sömu fríðinda. Annars skal ég ekki þreyta hv. þd. á því að fjölyrða meira um þetta að sinni. Ég vil aðeins geta þess að síðustu, að ef hugmyndin er að breyta aðeins þessum atriðum í löggjöfinni, þá er sama, í hvaða n. þetta fer, hvort heldur fjhn. eða menntmn., en ef breytingarnar eiga að vera víðtækari, þá er sjálfsagt, að málið fari til menntmn. Ég vil ekki standa í vegi fyrir því, að þetta mál nái fram að ganga sem sérstakt mál. En ég álít, að það muni ekki breyta miklu. Lögin sjálf bera í sér þetta kerfi, og þau hljóta að þröngva mönnum til að halda áfram að reisa skólahúsin. Ég veit um mörg sveitarfélög, sem væru byrjuð að byggja, ef framkvæmdir hefðu ekki verið stöðvaðar í fjárhagsráði. Og ég þekki ýmis önnur, sem hafa engin húsakynni til þess að uppfylla þær kröfur, sem Alþingi hefur beinlínis gert til þeirra með þessum lögum. Þau vandræði verða ekki leyst með þessari lagasetningu út af fyrir sig.