05.12.1950
Efri deild: 31. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í C-deild Alþingistíðinda. (3308)

52. mál, fræðsla barna

Frsm. (Finnbogi R. Valdimarsson):

Herra forseti. Ég verð að segja, að mig furðar á þeim misskilningi, sem fram kom hjá hv. þm. Barð. Það er alveg óskiljanlegt, hvernig hann getur lagt þennan skilning í brtt. nefndarinnar. Hann leggur þann skilning í ákvæði brtt., að það sé tilgangur hennar að útiloka framlag til nýrra skólabygginga. En þetta skilur hann algerlega rangt. — Hann varpaði fram þeirri spurningu, hvaða trygging væri í því fyrir viðkomandi sveitarfélag, að fræðslumálastjórnin geti ákveðið um byggingarframkvæmdirnar. Ég býst hins vegar við því, að viðkomandi bæjar- og sveitarfélög geti ekki fengið betri tryggingu en að fræðslumálastjórnin hafi lagt framlag til framkvæmdanna. En er fræðslumálastjórnin hefur veitt framlagið, hefur hún viðurkennt rétt viðkomandi aðila. Betri tryggingu geta þau ekki fengið. En þá talaði hv. þm. um óvinveittan fræðslumálastjóra. Ég get ekki skilið, að tilefni sé til að ætla, að fræðslumálastjóri sé óvinveittur neinni sérstakri skólabyggingu, og gat ég þess, hvað fræðslumálastjóri hefði lagt mikla áherzlu á, að það mætti ekki skerða skólabyggingarframkvæmdir úti um land, eins og gert hefur verið, svo að ég get ekki séð, að fræðslumálastjóri geti verið óvinveittur því, að bætt sé úr brýnni þörf.

Ég get ekki séð, að eftir að það er upplýst af nefndinni, að skilningur hv. þm. er rangur og fyrir nefndinni vakti að tryggja rétt sveitarfélaganna til nýrra byggingarframkvæmda, þá sé neitt, sem hv. þm. og nefndina geti greint á um, annað en það, hvort réttara sé, að Alþingi skipti fénu eða það verði gert, eins og gert hefur verið, samkv. till. fræðslumálastjóra. Hann hefur bezta aðstöðu til að vita, hvar þörfin er mest, og ber ég fullt traust til hans. — Hins vegar eru ógreidd framlög ríkissjóðs til skólabygginga. Það má segja, að úr þeim vandræðum mætti bæta með því að auka stórkostlega á næstu árum framlagið til skólabygginganna, en fjárveitingarnar undanfarin ár hafa verið svo naumar, að þegar hefur safnazt skuld í ógreiddum framlögum ríkissjóðs, sem taka mun 6–7 ár eða lengri tíma að greiða að óbreyttri fjárveitingu. Til þess að skólabyggingarnar stöðvist ekki, verður fjárveitingavaldið að auka framlagið til þeirra, og ríkissjóður verður að taka lán til að greiða áfallnar skuldir sínar. Aðra leið sé ég ekki í þessu máli.

Ég get þannig ekki fundið, að okkur hv. þm. Barð. greini á um annað en þetta, að hann virðist vera á þeirri skoðun, að Alþingi eigi að skipta fénu, en n. sjálf telur, að heildarupphæðinni eigi að skipta að till. fræðslumálastjórnarinnar.