05.12.1950
Efri deild: 31. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í C-deild Alþingistíðinda. (3309)

52. mál, fræðsla barna

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hef nú því miður ekki fengið neinar nýjar upplýsingar í þessari ræðu hv. frsm., og hefði ég þó gjarnan viljað heyra, í hverju minn skilningur á gr. sé rangur. Það meginspursmál, sem hér er um að tala, er þetta: Ákveður þessi grein, hvort ríkissjóður skuli greiða fyrr eða síðar þennan hluta af byggingarkostnaðinum, ef byrjað hefur verið á byggingunni án þess að skilyrðið sé uppfyllt? Um þetta vil ég leyfa mér að spyrja hv. frsm. Er það ekki viðurkennt, ef einhver aðili byrjar að byggja skóla, eftir að þetta hefur verið samþykkt, hvort heldur fyrir lánsfé eða af eigin rammleik, en hefur ekki uppfyllt þetta skilyrði, að þá eigi hann ekki kröfu á framlagi frá ríkinu? Ef ég fæ þetta út úr greininni, þá munu margir aðrir fá það líka. Það er ákaflega nauðsynlegt, að ákvæði séu skýr um þetta og ekki sé um það að villast, að þótt einhver byrji að byggja, án þess að skilyrðum sé fullnægt, þá geti hann þó á sínum tíma fengið ríkisframlagið. Vitaskuld er ekkert vit í öðru. En greinin verður þá bara að orðast um. Það stendur svo í gr. skýrum stöfum: „enda hafi fræðslumálastjórnin ákveðið framlag til viðkomandi skólabyggingar af því fé,“ þ. e. a. s., ef byrjað er á slíkri byggingu án þess, þá er ekki skylda að greiða framlagið. Þessu þarf að breyta, svo að hér verði enginn ágreiningur um. Hæstv. ráðh. ætlaðist ekki til, að þetta yrði skilið þannig. Og ef þetta er borið saman við gr. á þskj. 86, þá sést, að um enga efnisbreytingu er að ræða aðra en þá, að n. leggur til, að fræðslumálastjórnin úthluti fénu, en í frv. er gert ráð fyrir, að Alþingi geri það. Ég hef ekki lagt til, að skipting fjárins yrði falin fjvn. Til þess hefur verið ætlazt af ráðh., án þess að ég hafi barizt fyrir því. En hvað sem þessu líður, þá er meginatriðið í þessu máli það, að ekki verði tekinn af mönnum sá réttur, sem þeir hafa til að fá fé, sem lagt er til bygginganna, sem hafizt er handa um að reisa, endurgreitt á sínum tíma, og ef sá skilningur er réttur, þá þarf ekki að breyta lögunum. En með því að taka upp þessa brtt. eins og hún er, þá er strax gefið tilefni til ágreinings og deilna. Að mínu áliti er rétturinn tekinn af mönnum með þessu ákvæði, og til þess veit ég, að hv. 7. landsk. hefur ekki ætlazt, enda væri þar um að ræða hróplegt ranglæti. Ef þetta næði fram að ganga og deila risi út af skilningi á þessu ákvæði, og svo yrði dæmt, að viðkomandi aðili hefði engan rétt til framlagsins, hvað mundi hann þá þurfa að bíða lengi til þess að hafa von um að geta byrjað að byggja? Er ekki upplýst, að það taki ríkið 7 ár að greiða skuldir við byggingar, sem þegar eru hafnar? Og á meðan ríkissjóður er í fjárþröng, þá ýtir hann vitaskuld undir, að fjárframlög fari fyrst og fremst til þeirra, sem eiga lagaréttinn, en lætur hina heldur sitja á hakanum. Ég tel illt verk að stofna til þessa. Þau sveitarfélög, sem ráðizt hafa í stórkostlegar skólabyggingar, hafa gert það af tvennum orsökum: af þörf fyrir slíkar framkvæmdir og af því að þau hafa átt eða getað aflað sér til þess fjármagns í bili. Hin, sem ekki hafa lagt í það, hafa sumpart frá upphafi verið verr á vegi stödd fjárhagslega, og svo hefur fjármagnið og vinnuaflið verið frá þeim dregið til þeirra staða, er fyrr hófu framkvæmdir. Þessi olnbogabörn leggur nú hv. menntmn. til að verði sett út í horn.

Ég veit ekki, hvort hv. n. hefur í þessu efni leitað aðstoðar lögfræðings, en það þætti mér ómaksins vert, enda þótt hv. 8. þm. Reykv., sem er lögfræðingur, eigi að vísu sæti í n. N. hefði átt að leita sem gleggsts álits um þetta og ætti að fá skorið úr um skilning minn og sinn á greininni. Slík ágreiningsatriði hafa stundum komið fyrir dómstólana, og úrskurður þeirra hefur þá ekki alltaf farið eftir því, hvernig frsm. eða flm. hafa skilið þau atriði, sem um hefur verið deilt. Magnús heitinn Guðmundsson flutti t. d. eitt slíkt mál fyrir hæstarétti og vitnaði til þess skilnings, er hann hefði lagt í hið umdeilda atriði, en svarið var þetta: „Okkur varðar ekkert um, hvaða skilningur er sagt að eigi að liggja þarna á bak við. Bókstafurinn er þessi.“ — Þá má einnig nefna til dæmis, að mjög hefur verið deilt um orðalag á einni grein í lögunum um dýrtíðarráðstafanir, og þar höfðu þeir rétt fyrir sér, sem varað höfðu við orðalagi greinarinnar. — Ég tel því rétt í þessu tilfelli, þar sem hér er um svo mikilsvert atriði að ræða, að nefndin leitaði álits lögfræðings um orðalag greinarinnar, áður en frekari spor eru stigin í málinu.