05.12.1950
Efri deild: 31. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í C-deild Alþingistíðinda. (3314)

52. mál, fræðsla barna

Gísli Jónsson:

Ég sagði áðan, að ég mundi greiða atkv. á móti þessu máli. Síðan hafa komið fram upplýsingar frá nefndarmönnum um það, að þeir skildu málið á sama hátt og ég. Þess vegna er ekki deilt um annað en hvernig þetta verði orðað. Ég mun því fylgja málinu til 3. umr., en þá mun verða borin fram brtt. frá mér, sem ég skal lýsa nú, því að ég hygg, að það kæmi í veg fyrir allan ágreining, ef það stæði í staðinn fyrir þennan málslið þannig setning: „Nú er hafizt handa um byggingu skólahúss, án þess að fræðslumálastjórnin hafi ákveðið framlag til hennar, og hefur þá sá eða þeir, sem byggja, ekki rétt til framlags, fyrr en fræðslumálastjórnin hefur tekið þessa byggingu upp til fjárveitingar.“ Þetta er það, sem við meinum. Ég sé ekki ástæðu til að leggja fram þessa till. í þetta skipti, en skal ræða um þetta við n. Með þessari till. væri það skýrt ákveðið, að þessir aðilar tapa ekki sínum rétti, og það hygg ég að sé það, sem n. meinar. Hins vegar hefur hæstv. ráðh. aldrei meint þetta. Hér er ekki um neinar vanskilaskuldir að ræða. Það hefur aldrei verið skylda samkvæmt l. að leggja fram meira til bygginga en tekið er upp á fjárl., og viðkomandi aðilar hafa engan rétt til þess, að ríkissjóður beri vaxtabyrðina. Þess vegna er þessi breyt. óþörf, en til samkomulags skal ég fallast á, að málið fari til 3. umr., og mun ég þá ræða við n. um annað orðalag á brtt.