08.12.1950
Efri deild: 32. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í C-deild Alþingistíðinda. (3316)

52. mál, fræðsla barna

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hef, síðan 2. umr. fór fram hér, leitað mér nokkurra upplýsinga í sambandi við þetta frv., m. a. rætt ýtarlega við skrifstofu Alþingis, og komizt að þeirri niðurstöðu, að ef tryggja á það, sem haldið hefur verið fram hér, að viðkomandi sveitarfélög missi ekki rétt til framlags úr ríkissjóði, þó að þau hafi byggt skólahús áður en ákveðið er framlag til viðkomandi staða, þá sé nauðsynlegt að breyta þeirri till., sem komið hefur fram frá menntmn. Ég hef því gert hér nýja brtt. á þskj. 288, í tveimur liðum, í fyrsta lagi við 1. meginmálslið gr., en hann hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkissjóður greiðir allt að helmingi stofnkostnaðar heimangönguskóla, en þrjá fjórðu hluta stofnkostnaðar heimavistarskóla og skólastjórabústaða í heimangönguskólum.“ Aftan við þennan lið legg ég til, að bætist: „þegar fé er veitt til þess í fjárlögum.“ Ef þessi brtt. verður samþ., virðist mér vera tryggt, að viðkomandi sveitarfélög fái framlagið frá ríkinu, þegar fé er veitt til þess á fjárlögum, eins og hafnir fá nú, því að slík ákvæði eru í hafnarlögum, og viðkomandi aðilar vita þá fyrir víst, að þeir eiga þá kröfu á framlagi frá ríkinu, jafnóðum og það er veitt.

2. brtt. er svo umorðun á síðasta málsl. l. gr., og er lagt til, að hann verði svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstyrkurinn er bundinn því skilyrði, að fræðslumálastjórnin hafi samþykkt uppdrætti, áður en hafizt er handa um byggingu, og að skólalóðin sé eign viðkomandi skólahverfa eða afnotarétturinn tryggður með óuppsegjanlegum leigusamningum.“ Ég tel sjálfsagt, að þessi ákvæði séu sett inn í l. Það eru þá einnig nokkrar hömlur á, að viðkomandi aðili hlaupi til að byggja, fyrr en þessi ákvæði eru beinlínis uppfyllt. Með því að breyta frv. þannig getur ekki orðið ágreiningur um það, að rétturinn er tryggður viðkomandi sveitarfélögum og enginn ágreiningur heldur um, hvernig skilja beri gr. Nú er því lýst yfir við síðustu umr. af menntmn., að það bæri að skilja hennar till. þannig, að þessi réttur yrði ekki vefengdur, og þar með viðurkennt, að till., eins og hún er borin fram, setji engar hömlur á skuldasöfnunina, en það var tilgangur hæstv. ráðh., eftir því sem hann lýsti yfir, að með þessari till. ætti að setja skorðar við því, að skuldasöfnun yrði ótakmörkuð. Breyt., sem orðið hefur hjá n., er engin önnur en sú, að í staðinn fyrir það, að hæstv. ráðh. ætlaðist til þess, að fénu yrði skipt af Alþingi, þá er það nú samkvæmt till. menntmn. látið í hendur menntmrn. og fræðslumálastjóra. Það út af fyrir sig er ekkert ágreiningsatriði við mig í þessu máli. Ég tel þó, að það sé lakara fyrir sveitarfélögin, því að þau hafa þó alltaf tækifæri til að fá sinn hlut réttan á Alþingi á hverjum tíma og óskir sínar uppfylltar að einhverju leyti um fé til viðkomandi skóla til þess að tryggja, að þau fái framlagið á sínum tíma. Ég tel því þessa breyt. nokkuð til hins lakara fyrir þau. Hins vegar er það ekki meginatriði, því að Alþingi hefur að sjálfsögðu, þó að l. verði samþ. eins og menntmn. leggur til, rétt til að gera sínar till. um skiptingu fjárins, þó að l. væru svona. Hins vegar hefur ekki verið nein tilhneiging hjá fjvn. til þess að skipta þessu fé, hver sem verið hefur menntmrh., og er þetta því ekkert vantraust á ríkisstj. eða fræðslumálastjóra í sambandi við það atriði. Það, sem fyrir mér vakir, er að tryggja, að viðkomandi sveitarfélög eigi fullan rétt á þessu framlagi, hvort sem þau byggja skólann áður en ákveðið er af Alþingi eða fræðslumálastjórninni, að lagt sé fram fé til skólabyggingarinnar. Það getur verið svo aðkallandi þörf hjá viðkomandi sveitarfélagi að koma upp skólahúsi, að ráðast verði í það, þótt eigi sé þá unnt að fá mótframlag frá ríkissjóði, og þá vil ég ekki, að sá réttur sé tekinn af þeim, og vil, að það komi skýrt fram í l., og tel ég því sjálfsagt að samþ. brtt. okkar hv. þm. S-Þ. á þskj. 288.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða málið frekar á þessu stigi, en legg til, að brtt. verði samþ., eins og hún liggur fyrir á þskj. 288.