08.12.1950
Efri deild: 32. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í C-deild Alþingistíðinda. (3317)

52. mál, fræðsla barna

Frsm. (Finnbogi R. Valdimarsson) :

Herra forseti. Menntmn. hefur milli umr. athugað þær brtt., sem liggja fyrir á þskj. 288 frá hv. þm. Barð. og hv. þm. S-Þ. N. hefur ekki getað mælt með, að þessar till. verði samþ. Að vísu voru ekki allir nm. á fundi, en þeir, sem þar voru, meiri hl., litu einróma svo á. N. getur ekki séð, að þessar till. séu nauðsynlegar til þess að tryggja þann skilning frvgr., sem hv. þm. Barð. ber fyrir brjósti og n. hefur marglýst yfir að sé skilningur hennar, nefnilega að skólabyggingar, sem ráðizt hefur verið í að fengnu samþykki fræðslumálastjórnarinnar samkvæmt 12. gr. fræðslul., eins og þau eru, og að uppfylltum þeim skilyrðum, er þar greinir, skuli eiga rétt til þess ríkisframlags, sem ákveðið er í l. til skólabygginga, þó að byggingarkostnaður sé í upphafi lagður fram af viðkomandi héraði einu. Því hefur verið marglýst yfir af n. hálfu, að þetta sé hennar skilningur, enda held ég, að það liggi sæmilega ljóst fyrir af frvgr., eins og hún er orðuð nú. N. lítur svo á, að brtt. verði ekki skildar öðruvísi en svo, að þær séu bornar fram í þeim tilgangi að breyta um fyrirkomulag fjárveitinga til skólabygginga, þannig, að skiptingin verði í höndum Alþingis, eins og nú er um hafnargerðir, en ekki í höndum fræðslumálastjórnarinnar, eins og verið hefur. Þegar af fyrri brtt. má ætla, að þetta sé tilgangurinn, þar sem ætlazt er til, að við 1. meginmálslið gr. bætist: „þegar fé er veitt til þess í fjárlögum“, og síðari till. tekur þó af allan vafa, því að með henni er ætlazt til, að aftan af 1. gr. frv. falli: enda hafi fræðslumálastjórnin ákveðið framlag til viðkomandi skólabyggingar af því fé. M. ö. o., það er alls ekki gert ráð fyrir því, að fræðslumálastjórnin hafi úthlutunina með höndum, heldur verði það eingöngu í höndum Alþingis. Nú hefur fjvn. það verkefni að gera till. til þingsins um skiptingu þess fjár, sem veitt er hverju sinni til eitthvað 150 vega, 20–30 brúargerða og 50 hafna eða þar um bil árlega. Flm. eiga báðir sæti í fjvn., og má skilja svo, að þeir treysti sér vel til að bæta við þetta verkefni að úthluta fé til um það bil 70 skólabygginga, jafnvel þó að það sé alveg víst, að þetta verkefni sé ekki þakklátt, því að það er það vissulega ekki og hefur ekki verið síðustu árin, þegar heildarfjárveiting í fjárl. er orðin svo naum sem þar hefur verið. En n. verður að líta svo á, að þótt einstakir þm. hafi góða aðstöðu til að þekkja til skólabygginga hver á sínum stað, þá verði hinu ekki neitað, að fræðslumálastjórnin hafi enn þá betri aðstöðu en jafnvel Alþingi í heild til að hafa yfirsýn um þörfina í landinu öllu á hinum ýmsu stöðum, bera saman þær þarfir og þá aðstöðu, sem er á hinum ýmsu stöðum, og skera úr um það, hvar þörfin sé mest, og meta, hvað mest sé aðkallandi. Þetta er einróma álit n. og kom einnig fram á fyrri fundum hennar, svo að ég má fullyrða, þar sem það er þetta, sem veldur ágreiningnum, að n. vill að vel athuguðu máli halda fast við fyrri till. sína, að sama fyrirkomulag verði haft um skiptingu fjárins. Það verður að bera það traust til fræðslumálastjórnarinnar, að hún ráðstafi þessu fé réttlátlega, þangað til þá ráðstafanir hennar sæta meiri gagnrýni en þær hafa gert, því að ég man ekki eftir, að opinberlega hafi, jafnvel á síðustu árum, þegar þetta verk hefur verið svo erfitt sem allir geta séð, það orðið fyrir mikilli gagnrýni. Vitanlega situr alltaf pólitískur ráðherra, og má væna alla ráðh. um pólitíska hlutdrægni, en ráðh. munu í þessu efni telja sér skylt að fara mjög að till. fræðslumálastjóra, og tel ég enga ástæðu til að efast um, að fræðslumálastjóri líti á þörf og nauðsyn hvers staðar án allra pólitískra sjónarmiða. Hins vegar geta bæði pólitísk styrkleikahlutföll og fleira ráðið um þetta, ef það er í höndum fjvn. og Alþingis. En ef ráðstöfun þess fjár, sem þykir fært að veita til skólabygginga hverju sinni, yrði fyrir gagnrýni í höndum fræðslumálastjórnarinnar, þá er hægurinn hjá fyrir Alþingi að taka valdið í sínar hendur, hvenær sem það óskar.

Af því að ég sé hæstv. menntmrh. í d., vil ég endurtaka það, sem ég sagði síðast fyrir n. hönd, að n. telur, að með þessu frv. sé að vísu engin lausn fengin á því vandamáli, sem vitanlega er aðalatriði þessa máls, hvernig hægt sé að gera ráðstafanir til, að skólabyggingar stöðvist ekki með öllu vegna þeirrar skuldasöfnunar, sem þegar hefur átt sér stað. N. hefur ekki gert till. um þetta, taldi það ekki eiga heima í þessu frv., heldur í sérstöku frv. eða með lántöku, sem létti skuldabyrðina, sem nú er fyrir hendi. Yrði þá rýmra um ráðstöfun þess fjár, sem veitt er árlega til skólabygginga, en á því telur fræðslumálastjórnin hina mestu þörf og nauðsyn.

Ég held, að ég sjái svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál, eins og það liggur nú fyrir, en endurtek að síðustu, að menntmn. sér ekki ástæðu til að mæla með samþykkt þessara till. og mælir gegn þeim.