08.12.1950
Efri deild: 32. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í C-deild Alþingistíðinda. (3321)

52. mál, fræðsla barna

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð vegna fyrirspurna, sem fram hafa komið til mín í sambandi við þetta mál.

Ég verð að segja, að því meira sem litið er á þessa till., sem menntmn. flutti, þeim mun meiri óvissa er um það, hvað í henni felst, og hægt er að leggja tvenns konar skilning í frvgr., eftir að hún var samþ. við 2. umr. Í fyrsta lagi má skilja hana á þann veg, sem hæstv. menntmrh. sagðist mundu gera, þ. e. að styrkur eigi að halda áfram til skólahúsbyggingar, ef fræðslumálastj. hefur einu sinni úthlutað honum. Fljótt á litið getur þetta falizt í greininni, en þetta virðist þó líka mega skilja þannig, að skóli öðlist því aðeins rétt til styrksins, að hann fái hverju sinni úthlutun frá fræðslumálastj. — Ég vil benda á, að upphaf greinarinnar hljóðar á sama hátt og í lögunum — eða þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkissjóður greiðir allt að helmingi stofnkostnaðar heimangönguskóla.“ Í greininni segir „allt að“, svo að það er greinilegt, að skólarnir öðlast ekki kröfu til helmings, heldur „allt að helmingi“, og þá því aðeins, að fjárveitingin sé hverju sinni fyrir hendi. Því kemur ekki til mála, að fræðslumálastj. sé skuldbundin nema við það, sem hverju sinni er veitt. — Svo segir: „en þrjá fjórðu hluta stofnkostnaðar heimavistarskóla og skólastjórabústaða í heimangönguskólum.“ Hér stendur ekki, að ríkissjóður greiði „allt að“ þrem fjórðu hlutum, heldur er það skylda ríkissjóðs að greiða þrjá fjórðu hluta, og mér finnst ekki koma til greina, að það megi heldur skilja þennan hluta greinarinnar öðruvísi en að það eigi að halda áfram að greiða alla þessa þrjá fjórðu hluta, ef fræðslumálastj. hefur einn sinni veitt framlag. En þó er þetta ekki alveg víst, hvort skóli öðlist því aðeins rétt til þessa styrks, að hann fái hverju sinni úthlutun frá fræðslumálastj. Úr þessu er erfitt að skera. En það virðist þó vera ljóst í þeim hluta greinarinnar, sem „allt að“ nær til. Ég játa, að óeðlilegt er að hafa þennan mun, og hefði verið eðlilegra að láta „allt að“ ná til heimavistarskóla líka, en þá hefði orðið að segja: „allt að þrem fjórðu.“ En óeðlilegt finnst mér að vera að leggja meira til skólastjórabústaðanna en skólanna sjálfra, því að nauðsynlegra er þó að koma upp skólunum. Og enn kemur það til álita, hví í ósköpunum á að takmarka framlagið við að koma upp skólastjórabústaðnum í skólanum, en ekki utan byggingarinnar, eins og oft fer miklu betur á. En menn verða að játa, að þetta orðalag, eins og það er í gr. og lögunum frá 1946, hlýtur að krefjast endurskoðunar og beinnar efnisbreytingar, og vil ég henda á, að það þarf að kveða skýrar á í niðurlagi greinarinnar en nú er gert.

Varðandi brtt. hv. þm. Barð. og hv. þm. S-Þ. er það ljóst, að skólar geti ekki öðlazt neinn rétt umfram þann, sem þeir öðlast í fjárlögunum, þannig að það, sem er vafasamt í greininni nú, er vafalaust við brtt., og þar að auki er ætlazt til þess, að Alþingi skipti fénu í stað fræðslumálastj. Annar flm. brtt. ætlaðist til, að þetta skildist á annan veg, en ég get ekki skilið þetta öðruvísi. Annars má deila um það endalaust, hver helzt ætti að úthluta fénu. — En sumir hafa ekki verið ánægðir með þetta fyrirkomulag, t. d. var talið af hálfu forráðamanna Reykjavíkurbæjar, að fræðslumálastj. hefði hallað á Reykjavíkurbæ. Ég veit ekki, hve mikil rök þetta styðst við. Og það getur verið ástæða til að breyta um þetta fyrirkomulag, en ég efast þó um, að það sé betra að láta þetta í hendur Alþingis.

Ég held, að skynsamlegast væri að fresta umr. og athuga orðalag greinarinnar betur, því að það er mjög óheppilegt og verður enn óheppilegra eftir hina ráðgerðu breytingu.