08.12.1950
Efri deild: 32. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í C-deild Alþingistíðinda. (3323)

52. mál, fræðsla barna

Viðskmrh. (Björn Ólafsson) :

Herra forseti. Það kemur ýmislegt fram, þegar mál eru rædd, og svo er um þessa lögskýringu, sem hæstv. dómsmrh. kom fram með, sem menn hafa haft sífellt fyrir augunum. Hæstv. dómsmrh. fer rétt með það, að með þessu orðalagi má segja, að ríkissjóður sé ekki skuldbundinn til þess að greiða helming stofnkostnaðar heimangönguskóla og þrjá fjórðu hluta stofnkostnaðar heimavistarskóla, en það hefur nú verið svo um þessar framkvæmdir, að þetta hefur verið álitin skylda ríkissjóðs og þannig hefur þetta verið framkvæmt. Þess vegna má vera, að full ástæða sé til að taka þetta mál til nýrrar athugunar og orða lagagr. á aðra leið. Eins og hv. þm. S-Þ. (KK) sagði, hafa sveitarfélögin orðið að búa við öryggisleysi í þessum málum, þar sem þeim hefur verið ofvaxið að standa undir þeirri byrði, sem á þau hefur verið lögð undanfarin ár með skólabyggingum, vegna þeirrar óvissu, sem er um fjárframlög ríkissjóðs til þeirra.

Út af brtt. á þskj. 288 frá hv. þm. Barð. og hv. þm. S-Þ. vil ég endurtaka það, að ef það er þeirra skoðun, að þessi úthlutun sé í höndum Alþ., álít ég, að það verði að sundurliða fjárframlögin til hvers einstaks skóla í fjárl. til þess að tryggja þeim einhvern rétt, ef það er það, sem fyrir þeim vakir. Annars er þeim tilgangi ekki náð. Þetta mál er hér fram komið af því, að menn telja mjög brýna ástæðu til þess, að einhver annar háttur sé á þessu hafður en verið hefur og þá aðallega þannig að tryggja þessum byggingum fjárframlög, en að sveitarfélögin, sem fyrir þessum byggingum standa, þurfi ekki að bíða í óvissu frá ári til árs um það, hvort þau fái þessi framlög úr ríkissjóði upp í kostnað skólabygginganna, sem byrjað hefur verið á, eru langt komnar eða fullgerðar og sveitarfélögin skulda stórfé í, í trausti þess, að ríkissjóður greiði þessi tillög, sem menn almennt hafa skilið samkvæmt l. að hann ætti að standa skil á. — Ég álít þess vegna, ef hv. flm. ætlast til þess, að framkvæmdin sé þannig, að till. þeirra verði að ákveða greinilegar um meðferð málsins hjá Alþ.