21.10.1950
Efri deild: 5. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í B-deild Alþingistíðinda. (333)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það er ekkert óeðlilegt, að þingmönnum komi þetta úrræði í hug, því að ríkisstj. var með það á prjónunum lengi framan af. Ekki vegna þess, að bjargráðasjóður hafi svipað fjármagn til umráða og til þarf. Þess vegna hefði orðið að láta féð í bjargráðasjóð og lána það út f.h. ríkissjóðs. En það er ekki auðvelt að hafa þetta fyrirkomulag og raunar útilokað, vegna þess að lagðar eru fram skýrslur um fóðurbirgðavöntunina í hverjum hrepp, og þessir menn gera svo till. um, hvað hver hreppur eigi að fá í óafturkræfu framlagi. Ef átti að koma í veg fyrir niðurskurð, þurftu bændur að vita um það. Ríkisstj. hafði aðeins 2–3 daga til að ákveða, hve mikið skyldi veitt, og bar það svo bráðan að, að hún sendi símskeyti til allra oddvita um það að hafa tilbúinn fund í hreppunum næsta dag og segja til um, hverju skyldi slátrað. Þessi lánaákvörðun, sem varð að taka innan þriggja daga, gerði það ókleift að veita lánin svona, því að þá þyrfti að kalla á stjórn bjargráðasjóðs og segja henni að veita lánin eftir þessari reglugerð. Við ætluðum að gera þetta fram á síðustu stund, en sáum, að það var ekki hægt.

En viðvíkjandi því, að ráðh. hafi með þetta að gera, þá er það ekki rétt. Í fyrsta lagi er hið óafturkræfa framlag veitt til hvers hrepps eftir tillögum nefndarinnar. Síðan er það hreppsn., sem ákveður, hvernig lánunum er skipt. Er enginn efi á því, að hver hreppsn. geri það eins samvizkusamlega og henni er unnt. Viðkvæmni manna fyrir slíkum málum má sjá af því, að tveir sjálfstæðisþingmenn sögðu, er ég bað þá um hey í harðindunum 1949: „Við seljum ekki heyið nema fyrir það, sem það var í haust.“

Tel ég, að ómögulegt sé að hafa réttlátari hátt á úthlutuninni. En til þess að bændur fengju að vita um þessa hjálp, svo að þeir gætu hagað slátrun sinni eftir henni, varð ég að framkvæma þetta samstundis.