12.12.1950
Efri deild: 35. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í C-deild Alþingistíðinda. (3332)

52. mál, fræðsla barna

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Í byrjun var það hér til umr., að orðalag frvgr., eins og það var, væri óljóst. Það er yfirleitt svo, að menn viðurkenna, ef þeim hefur yfirsézt, en það vill hv. menntmn. ekki gera. Hún hefur að vísu flutt brtt. til að gera orðalagið skýrara, og sýnir það hið gagnstæða við yfirlýsingu hennar. En hvað sem n. segir, þá er ljóst, að meðan um annan aðilann er tekið fram, að hann skuli fá aðeins rétt til að fá ríkisframlag allt að helmingi, en hinn skuli fá 3/4, þá er þessum aðilum mjög mismunað, ekki eingöngu um hlutfallið, heldur einnig um réttinn, vegna þess að það er svo um þann aðilann, sem á aðeins rétt til að fá framlag allt að helmingi, að hann á það undir mati þeirra, sem ákveða úthlutunina, hvort hann fær 1/10, 1/20 eða helming. Það eru ekki brotin á honum lög, þó að hann fái ekki meira en 1/20. Sá aðilinn, sem á að fá 3/4, mundi geta fengið það framlag dæmt sér, en hinn aðilinn mundi ekki geta fengið neina slíka dómsviðurkenningu, og skal ég ekki frekar um það ræða, en það er algerður misskilningur, að þrátt fyrir nokkra breyt. á orðalagi geti þeir, sem reisa heimangönguskóla, reiknað með því, að þeir fái fullan helming, þó að þeim skilyrðum sé fullnægt, sem hér segir. Þeir eiga engan rétt á fullum helmingi. Það má ekki veita þeim meira en helming, en það er komið undir þeim, sem úthluta, hvort þeir fá helming eða hve mikið þeir fá. Hitt er annað mál, að þetta er réttarbót frá því, þegar allir kaupstaðir urðu að sætta sig við að fá ekki neitt, en nú er þó heimilt að greiða það. Áður var það ekki. En það er ekki skylt að greiða þeim á sama veg og skylt er að greiða til heimangönguskóla. Því er það, að þegar talað er um, að kaupstaðarhreppar, sem hafa reist heimavistarskóla, eigi þetta fé inni hjá ríkissjóði, sem ekki hefur verið borgað, þá fær það ekki staðizt. Það er rétt um þá, sem hafa reist heimavistarskóla, að þeir eiga þessa skuld hjá ríkissjóði, en hinir eiga enga skuld, af því að þeim er eingöngu lofað „allt að“. Á þessu er augljós meginmunur, sem jafnvel eftir þessa orðabreyt. hlýtur að haldast, nema frekari breyt. verði gerð. Ég benti á þetta ósamræmi í dag, vegna þess að ég var spurður, hvernig ætti að skilja þessa gr. Mér virðist ljóst, að n. hafi ekki enn áttað sig á þeim mun, sem hér er um að ræða. Hún um það. En ég fyrir mitt leyti tel eðlilegt, að úr þessu ósamræmi verði bætt, og leyfi mér því að bera fram skrifl. brtt. um, að orðin „allt að helmingi“ í 1. efnismálslið 1. gr. frv. breytist í „helming“. Með því móti er komið samræmi á við það, að veita skuli ¾ til heimavistarskóla. Það er að vísu eftir sem áður munur á hlutfallinu, en varðandi það atriði, sem ég hef gert að umræðuefni, verður úr því bætt, ef brtt. mín verður samþ. Svo legg ég til, að ákvæðið um styrk til byggingar skólastjórabústaða skuli einnig ná til heimangönguskóla, þannig að ríkið leggi helming fram til þeirra. Ég sé ekki ástæðu til að takmarka þennan styrk við skólastjóraíbúðir í heimavistarskólum, heldur séu þessir bústaðir styrktir af ríkinu, hvar sem þeir eru reistir. Þetta er í rauninni aðeins leiðrétting, og á hún eins við, þó að brtt. þeirra hv. þm. Barð. og hv. þm. S-Þ. verði samþ.