02.11.1950
Efri deild: 13. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í B-deild Alþingistíðinda. (340)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem hæstv. landbrh. sagði, að það er enginn ágreiningur um meginatriði málsins, sem sé nauðsyn þess að veita þeim bændum aðstoð, sem urðu fyrir óáran síðasta sumar. Það er miklu fremur ágreiningur um það, sem jafnvel mætti kalla formið eitt, og þegar ég hef talað um það, að fjhn. hafi ekki klofnað illa í málinu, átti ég við, að hún hefði ekki klofnað um það, sem mikilsverðast er.

Ég stóð hér upp til þess að leiðrétta atriði, sem fram komu í ræðu hv. þm. Barð. (GJ). Hann sagði, að hægt hefði verið að veita málinu í þann farveg að láta bjargráðasjóð fara með málið. Þetta er ekki rétt. Hann heldur því fram, að hann hafi ekki orðið þess var í l., sem ég sagði, að lánin mætti ekki veita nema til eins árs í senn undir slíkum kringumstæðum, sem hér um ræðir. Nú vill svo til, að ég hef verið að hugsa dálítið um mína heimabyggð, Húsavík. Húsavík var ekki dæmd svo illa stödd í heyskaparmálum, að rétt þætti að veita henni styrk eða lán, og ætla ég ekki að setja út á það. Að vísu var erfitt um hirðingu heyja á Húsavík, en ekki svo, að hallærisástand hlytist af, einkum þegar litið er á, að það eru aðeins nokkrir menn, sem þar stunda landbúnað. Þar varð þó að gera innkaup á heyjum til þess að tryggja afkomu fólks í vetur. Þá var það, að ég sótti um lán til bjargráðasjóðs, og við athugun kom í ljós, að Húsavík gat ekki fengið lán nema til eins árs, og það er samkv. 12. gr. l. um bjargráðasjóð. Þar er fyrirstaða þess, að hægt hefði verið að veita málinu í þann farveg, sem hv. þm. Barð. heldur fram. Í 12. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ef haustbirgðir reynast svo litlar í einhverju héraði, að hætt er við bjargarskorti fyrir menn og skepnur, ef illa vetrar, þá má sýslunefnd eða bæjarstjórn með samþykki bjargráðastjórnar nota séreign sína í sjóðnum til að kaupa eða tryggja varaforða, en það fé, sem þannig er notað, skal greiða aftur að fullu, en vaxtalaust, í bjargráðasjóð á ársfresti, nema því verði ráðstafað samkv. 1. mgr. þessarar gr.“ Þarna er fyrirstaðan, og ég. er alveg hissa á því, að hv. þm. Barð. skuli ekki hafa fundið þetta. Mér virðist þetta sönnun fyrir því, að hann hefur ekki athugað, hversu farvegurinn er þrotinn. Hv. þm. Barð. sagði, að hann ætlaðist ekki til annars en að þær framkvæmdir, sem nú væru eftir, yrði bjargráðasjóður látinn annast. En ég spyr: Hvað er eftir? Það er búið að taka lán, skipta því og tilkynna þeim, sem við eiga að taka, og jafnvel sumir búnir að hefja sinn hlut. Mér skilst, að Búnaðarbankinn eigi að hafa innheimtu lánanna með höndum. Finnst mér það eiga vel við, af því að hann er sú bankastofnun, sem mest á viðskipti við bændur, og hygg ég, að meiri trygging sé fyrir því, að lánin innheimtist þannig, heldur en ef bjargráðasjóður hefði innheimtuna með höndum, því að hætt væri við, að hjá stjórn hans ríkti sá hugsunarháttur, að síður væri gengið eftir endurgreiðslum, af því að hann er hjálparstofnun. — Þá talaði hv. þm. Barð. um það, að við í meiri hl. mundum ekki hafa unnið fullkomlega samkvæmt samvizku okkar í málinu, en ég verð að segja það, að sú samvizkusemi er heldur léleg, sem aðeins kemur fram í því að leggja það til málanna, sem ekki er unnt að framkvæma, en það virðist mér koma fram hjá hv. minni hl.

Hér er ekki um annað að ræða en að deila um orðinn hlut, ef menn vilja eyða tíma sínum í það, en ég álít, að ekkert sé um að sakast í þessum efnum.