20.10.1950
Neðri deild: 6. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í C-deild Alþingistíðinda. (3400)

22. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Þetta frv. var borið hér fram á síðasta þingi og þá afgr. með svonefndri rökstuddri dagskrá. Síðan var málið tekið í öðru formi í sambandi við afgreiðslu fjárl., en þá lögðum við þm. sósíalista til, að gerðar yrðu ráðstafanir til þess, að byggðar yrðu íbúðir fyrir 7½ millj. kr. í samræmi við lög um opinbera aðstoð við byggingu íbúðarhúsa í kaupstöðum og sveitum. Sú till. var einnig felld, en þá vísuðu allmargir þm. til þess, að samkv. gengislækkunarl. ætti hluti af hagnaði bankanna að renna til þess að framkvæma þessi lög. Nú þegar er fengin ofurlítil reynsla af þeim fyrirheitum. Reykjavíkurbær mun hafa fengið ½ millj. kr. af þessum hagnaði, sem mun vera mestur hluti þess, sem hann á að fá, en þessi upphæð hefur þó ekki verið notuð í samræmi við l. um opinbera aðstoð við byggingu íbúðarhúsa, heldur til allt annars, með leyfi ríkisstj., þannig að þetta fjárframlag hefur ekki orðið til þess, að gerðar hafi verið neinar ráðstafanir til að bæta úr húsnæðisskortinum. — Ég þarf ekki að lýsa fyrir alþm., hvernig ástandið er, það var rætt svo ýtarlega á síðasta þingi og því auk þess lýst á svo eftirminnilegan hátt í blaði hæstv. félmrh. Ég skal þó leyfa mér að minnast á eitt örlítið dæmi, sem nýlega kom fram í greinargerð forstjóra elliheimilisins, sem varla verður sakaður um austrænar skoðanir eða austrænan málflutning. Hann skýrir frá því, að hann hafi átt í harðri baráttu við fjárhagsráð til þess að fá leyfi fyrir lítilli viðbótarbyggingu við elliheimilið, en það hafi ekki gengið. Hann nefnir dálítið dæmi — eitt af mörgum — úr húsnæðismálunum. Gömul kona hafi komið til hans og sagt: „Haldið þér, að hægt verði að fá sjúkrapláss fyrir manninn minn? Hann er búinn að liggja veikur í tvö ár, og síðan ég kom hingað (hún er rúmliggjandi sjúklingur), þá eru þeir einir heima feðgarnir. Það er svo erfitt fyrir son okkar að halda þetta lengur út, og manninum mínum líður svo illa, hann er svo mikið veikur.“ Sama sagði læknirinn, sem stundaði gamla manninn. En læknirinn sagði meira: „Það er hneyksli, að aðbúnaður margra veikra gamalmenna skuli vera svona afskaplegur. Yður mun blöskra, ef þér farið hingað.“ Læknirinn sagði satt. — Síðan heldur forstjórinn áfram í grg.: „Hvað þýðir að vera að segja þér frá þessu, lesari góður? Þú þarft ekki enn á vistplássi á elliheimili að halda, þú ert ekki í sporum konunnar, sem kom og bað um pláss fyrir hann föður sinn. Henni var neitað um vistpláss, þau bjuggu fyrir utan bæ, en Reykvíkingar ganga fyrir um vistpláss. Það leið langur tími, aftur var beðið um vist fyrir gamla manninn, og nú fékkst hún. Af hverju? Hann var um áttrætt, blindur á báðum augum og hálfruglaður. Dóttir hans átti heima í húsi fyrir utan bæinn, maður hennar á sjó, en hún ein heima með pabba sinn og litlu börnin þrjú. Í húsinu er ekkert rafmagn, ekkert vatn, urð heim að því frá aðalveginum. Eldavélin í eldhúsinu hitar upp stofuna. Ég fór þangað, en ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum. Eru þetta híbýli fólks á Íslandi á því herrans ári 1950? „Hvar er faðir yðar?“ ég sá ekki nema eldhúsið og stofuna. „Hérna inn af“, sagði konan og opnaði dyr, og sé ég þá smáskot og eitt rúm, en fyrir framan það voru rimlar. Mér ofbauð, en hjúkrunarkonan, sem með mér var, sagði: „Hvernig gátuð þér passað hann föður yðar svona lengi og svo vel, að ekkert sár var á honum, þegar hann kom til okkar?“ „Það var oft erfitt, en þetta var hann pabbi minn.“

Þannig segir forstjóri elliheimilisins frá litlu dæmi um aðbúnað gamalmenna. Það hefur stundum verið sagt, að hægt væri að meta menningargildi eins þjóðfélags eftir því, hvernig búið væri að gamalmennum, og má það satt vera, en þó má segja, að aðbúnaður barnanna sé enn algildari mælikvarði. Um síðustu áramót skýrði húsaleigunefnd frá því, að í bröggum og öðru þess konar húsnæði byggju þá 419 börn, að ótöldum hópi barna, sem býr einnig í algerlega óviðunandi saggakjöllurum. Það er engum efa bundið, að mjög verulegs hluta af hópi þessara barna bíður bráð hætta varðandi heilsutjón, auk þeirra sálrænu áhrifa, sem slíkur aðbúnaður hefur í för með sér. Þrátt fyrir það, að ástandið sé svona slæmt, fara aðgerðir stjórnarvaldanna ekki í þá átt að bæta úr þessu ástandi, heldur fara þær í þá átt að vinna að því markvisst að koma í veg fyrir byggingu íbúðarhúsa. Má marka það meðal annars af því, að í ár mun verða flutt inn um það bil þriðjungi minna af sementi en í fyrra. Eins og fram kemur í grg. fyrir frv., eru afleiðingar þessarar stefnu mjög óheillavænlegar. Árið 1946 voru t. d. fullgerðar 634 íbúðir, en ekki nema 366 árið 1949. Þetta ástand er algerlega óþolandi, og mér finnst, að það væri ástæða fyrir hv. alþm. að endurskoða afstöðu sína til þessa máls frá því sem hún var á síðasta þingi. Þessi lög, um opinbera aðstoð við byggingu íbúðarhúsa í kaupstöðum og sveitum, voru mjög merk löggjöf á sínum tíma, og mér finnst, að Alþ. ætti þá að sjá sitt stolt í því núna að hefja aftur þetta verk, sem fitjað var upp á 1946, með því að samþ. þetta frv.

Ég vil svo mælast til þess, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.