24.10.1950
Neðri deild: 8. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í C-deild Alþingistíðinda. (3414)

31. mál, skáldalaun rithöfunda og listamanna

Viðskmrh. (Björn Ólafsson) :

Herra forseti. Það er rétt, að það er talið hvimleitt, hvernig þessi úthlutun hefur staðið undanfarið. Og það er nauðsynlegt, að úthlutuninni á listamannastyrknum sé komið í fastara form en verið hefur og í form, sem ekki leiðir af sér sífelldar deilur um skiptingu styrkjanna. Mér finnst þess vegna þörf tillagna til að bæta úr í þessu efni, þó að ég sé hins vegar ekki bjartsýnn á, að það, sem hér í þessu frv. er lagt til, leysi þennan vanda. En það gæti þá verið hlutverk þeirrar hv. n., sem tekur mál þetta til athugunar, að sjá, hvort hún gæti ekki a. m. k. nú fyrst um sinn fundið leið, sem fær væri í þessu efni. — Hugmyndin um listarráð eða akademi finnst mér góð og ástæða til að veita henni athygli. En eins og hún er þarna í frv. sett fram, tel ég hana ekki vera rétt upp byggða.

Ég hef haft nokkuð til athugunar undanfarið möguleikana á því, hvort hægt væri að setja upp slíkt ráð hér eða akademi, þar sem ættu sæti mestu andans menn þjóðarinnar, og því væri komið fyrir í svipuðu formi og annars staðar, þar sem slík ráð eru. Þessari athugun er ekki lokið, og ég ætla því ekki að fara nánar inn á þetta mál hér. En mér þótti ástæða til að minnast á þetta, vegna þess að ég tel, að hugmyndin sé þess verð.