03.11.1950
Neðri deild: 15. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í C-deild Alþingistíðinda. (3426)

62. mál, búfjárrækt

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég flyt ásamt hv. þm. V-Sk. þetta frv. um breyt. á l. um búfjárrækt. Það er lagt til, að eftir 37. gr. komi ný gr., sem hljóðar eins og getið er í frv. Frv. skýrir sig að mestu sjálft. Það er um, að ríkissjóður styrki hrossaræktarfélög, sem fyrirhugað er að stofna víðs vegar um land á sambandssvæðum búnaðarsambandanna sunnanlands. Hrossaræktarráðunautur Búnaðarfélags Íslands telur, að ef árangur á að nást í hrossarækt, þá verði þessi sambönd að komast á sem víðast á landinu, en þessari starfsemi hlýtur að fylgja nokkur kostnaður. Er því gert ráð fyrir í frv., að ríkissjóður greiði nokkurn styrk í þessu skyni, en þó ekki meira en kemur frá héruðunum í hlutaðeigandi félögum. Má því gera ráð fyrir, að það verði aldrei stór upphæð, sem um er að ræða í þessu sambandi, vegna þess að héruðin verða sjálf að leggja jafnmikið á móti.

Við leggjum til, að þetta frv. fari til landbn. og hrossaræktarráðunauti Búnaðarfélags Íslands verði gefinn kostur á að ræða við n., þegar hún tekur málið fyrir, og er því síður ástæða til, að ég sé að reifa málið við þessa umr., þar sem ráðunauturinn mun gefa allar upplýsingar og skýringar, sem n. vill fá um þetta mál og nauðsynlegt er að fá.

Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og landbn.