12.01.1951
Neðri deild: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í C-deild Alþingistíðinda. (3441)

69. mál, sjúkrahús o.fl.

Frsm. (Páll Þorsteinsson) :

Herra forseti. Í sjálfu sér er ekki ástæða til að hafa mörg orð í tilefni af ræðu hv. 1. þm. Rang. Ég vil leyfa mér að bæta örfáum orðum til skýringar við það, sem ég tók fram í gær við 2. umr. Það virðist vera ástæðulaus ótti hjá hv. 1. þm. Rang., að ef Siglufjörður fengi þessi réttindi, mundu aðrir kaupstaðir koma á eftir. Auðvitað er það þingsins að ákveða og meta hverju sinni, hvort verða skal við slíkum kröfum, ef fram kæmu. Virðist mér, að í fyrsta lagi kæmi til álita dvöl aðkomufólks á staðnum. Nú er það vitað mál, að um langt skeið hefur Siglufjörður verið mesti síldarútgerðarbær þessa lands, og á sumrin dvelur þar mjög margt fólk úr öðrum landshlutum. Er enginn kaupstaður hér, sem kemst til jafns við Siglufjörð að þessu leyti, nema þá helzt Vestmannaeyjar, enda er svo, að þingið hefur markað nokkra sérstöðu fyrir Siglufjörð og Vestmannaeyjar. Í fjárlögum er gert ráð fyrir, að sérstakur rekstrarstyrkur sé greiddur til sjúkrahúsa nokkurra kaupstaða, eða Ísafjarðar, Akureyrar, Seyðisfjarðar og jafnframt til Siglufjarðar og Vestmannaeyja. Þetta hefur þingið samþ. við afgreiðslu fjárlaga nú fyrir jólin. Ætla ég, að það hafi samþ. þetta 9 sinnum í röð, eða síðan 1943. Bendir þetta til þess, að þingið hafi séð, að nokkru öðru gegndi um þessa staði en aðra almennt. Í öðru lagi ber að athuga samgöngur frá hlutaðeigandi stað við Reykjavík. Þar eru flestir læknar og bezt tæki, og þar eru bezt skilyrði til að vinna bug á sjúkdómum. Þótt samgöngur fari batnandi, þá hygg ég ekki álitamál, að bæir við Faxaflóa hafi betri skilyrði til að koma sjúklingum til Reykjavíkur en bæir úti á landi, til dæmis Siglufjörður. Finnst mér nægilegt að bera saman Keflavík og Siglufjörð, og þótt teknar séu sem dæmi Vestmannaeyjar, þá eru samgöngur mun greiðari þaðan. (HelgJ: En frá Siglufirði til Akureyrar?) Á Akureyri er að vísu fjórðungssjúkrahús, en aðstæður munu samt ekki vera eins fullkomnar og hér í Reykjavík. — Þetta vildi ég taka fram, og er ekki ástæða til að fjölyrða þetta frekar.