12.01.1951
Neðri deild: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í C-deild Alþingistíðinda. (3443)

69. mál, sjúkrahús o.fl.

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég vil sem stuðningsmaður láta skoðun mína í ljós, að ég tel upplýsingar hv. þm. Borgf. um, að Siglufjörður hafi ekki sérstöðu, ekki réttar. Ég tel, að til Siglufjarðar sæki fjöldi íslenzkra skipa alls staðar af landinu. Siglufjörður þarf þess vegna að hafa stærra sjúkrahús en þörf er fyrir kaupstaðinn sjálfan, og fyrirhuguð bygging er ekki aðeins miðuð við að fullnægja þörfum kaupstaðarins, heldur er hún miðuð við að fullnægja þörfum þeirra, sem sækja þangað annars staðar af landinu. Að þessu leyti hefur Siglufjörður sérstöðu. Og þegar hv. þm. Borgf. talar um, að það sé líkt á komið um Patreksfjörð, þá er það ekki rétt, því að þangað sækja ekki svo neinu nemur innlendir sjúklingar, heldur eru það útlendingar, sem sækja þangað, og fyrir þá er tekið sérstakt gjald, nokkru hærra en fyrir íslenzka sjúklinga. Patreksfjörður þarf því ekki að hafa sjúkrahúsið við vöxt eins og Siglufjörður þarf að gera viðvíkjandi aðsókn utan að komandi manna. Hér í Faxaflóa og við Vestmannaeyjar má segja að ekkert sé yfir vertíðina af öðrum skipum en sem þar eiga heima. Hér við Faxaflóa hafa að vísu verið reist 2 sjúkrahús, sem nú eru langt komin og gætu tekið til starfa fljótlega, ef ekki hindraði innlendur fjárskortur og gjaldeyrisskortur, og vonandi taka þessi sjúkrahús fljótlega til starfa. En hvorki í Vestmannaeyjum né á Akranesi þarf að hafa sjúkrahúsin stærri en líklegt er að fullnægi þörfum kaupstaðanna heima fyrir. Ég tel þess vegna ekki, þó að þetta frv. sé samþ., að það sé neitt sérstakt fordæmi. Annað mál er það, að vel mætti vera réttara, að ríkissjóður styrkti sjúkrahúsbyggingar úti á landi ríflegar en gert hefur verið, en um það er ekkert sagt með þessu frv.