11.01.1951
Neðri deild: 47. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í C-deild Alþingistíðinda. (3469)

128. mál, Iðnaðarbanki Íslands

Frsm. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Frv. þetta um stofnun og rekstur Iðnaðarbanka Íslands h/f er flutt eftir ósk Landssambands iðnaðarmanna, Félags ísl. iðnrekenda og iðnþingsins af meiri hluta iðnn. Nd., hv. þm. Hafnf., hv. 6. þm. Reykv. og mér. Hv. þm. V-Húnv. og hv. þm. Mýr. vildu ekki vera meðflm., en flytja í þess stað till. í Sþ. varðandi þetta mál.

Það er ljóst, að eitt meginskilyrðið fyrir atvinnugreinarnar er að hafa greiðan aðgang að hagkvæmum lánum bæði um stofnkostnað og rekstrarkostnað. Um langan aldur hafa landbúnaður og sjávarútvegur verið meginatvinnuvegir þjóðarinnar, og hafa þeir haft sérstaka banka til að leysa úr lánsfjárþörf sinni. Auk þjóðbankans starfaði Íslandsbanki um margra ára skeið, og á eftir honum kom svo Útvegsbankinn 1930, og greiðir hann fyrir lánsfjárþörf sjávarútvegsins. Á sínum tíma var svo Ræktunarsjóðurinn stofnaður, en hann greiddi fyrir ræktun í landinu, en upp úr honum og fleiri sjóðum óx svo Búnaðarbankinn, sem var stofnaður fyrir 1930. Þessir tveir meginatvinnuvegir okkar hafa því fyrir nokkru fengið sínar sérlánastofnanir, en iðnaðurinn hefur enn sem komið er ekki fengið sína lánastofnun, að vísu mætti í þessu sambandi nefna Iðnlánasjóð, sem stofnaður var með l. frá 1935, og þó að hann hafi gert nokkurt gagn, þá er hann þó lítils megnugur. Ríkissjóður hefur árlega lagt nokkurt fé fram til sjóðsins, en lánsmöguleikar hans eru svo takmarkaðir, að varla er hægt að nefna hann lánastofnun að ráði, þó að hann hafi gert það gagn, sem hann hefur getað í þessum efnum. En nú hefur orðið gerbreyting í atvinnulífi okkar, þannig að iðnaður og iðja hafa færzt stórkostlega í vöxt. Fram yfir 1930 var iðnaður naumast til í landinu, nema þá handiðja, en síðustu tvo áratugi hefur iðnaður og iðja færzt mjög í aukana. 1940 var komið svo, að rúmlega 21% landsmanna lifði á iðnaði, og nú hefur um 1/3 landsmanna lífsframfæri af honum, en um 40% af íbúum höfuðstaðarins. Á næstu árum má gera ráð fyrir, að margs konar iðja og verksmiðjurekstur færist í aukana, þegar hin stóru raforkuver, Sogsvirkjunin og Laxárvirkjunin, komast í notkun, en nægileg og ódýr raforka er ein aðalundirstaða iðnaðarins. Þó að sumir telji, að gjaldeyrisvandræði og innflutningshömlur hafi ýtt undir aukinn iðnað í landinu, þá er það víst, að þó að gjaldeyrisafkoma okkar batni og unnt verði að leysa innflutningshömlur, þá mun iðnaður og iðja fara vaxandi í landinu, einkum eftir að þessi tvö raforkuver taka til starfa. Það er því full nauðsyn að athuga í fullri alvöru, hvernig hægt verði að greiða úr lánsfjárþörf þessa stóra atvinnuvegar í framtíðinni. Félag ísl. iðnrekenda og Landssamband iðnaðarmanna hafa undirbúið mál þetta um nokkurra ára skeið, og er þetta frv. niðurstaða þeirra athugana og undirbúnings.

Það er ekki þörf á að bæta miklu við um þörfina fyrir þessa lánastofnun iðnaðarins. Ég ætla, að það hafi komið fram í skýrslu frá fjárhagsráði fyrir 2 árum, að 1947 hafi fé það, sem bundið var í iðnaðinum, numið a. m. k. 300 millj. kr., og hefur það sennilega aukizt allverulega síðan. Fjárþörf iðnaðarins er því mjög mikil, og þarf hann oft meira fé í rekstrarkostnað en aðrar atvinnugreinar. Flest fyrirtæki þurfa að fá hráefni með löngum fyrirvara, og oft líður langur tími frá því, að hráefnið er pantað, og þangað til varan er tilbúin til sölu, en þegar hráefnið er pantað, þarf að jafnaði að greiða 1/3 hluta verðs þess eða jafnvel stundum alla vöruna. Auk þess þarf iðnaðurinn oft að greiða háa tolla og aðflutningsgjald, löngu áður en hægt er að koma framleiðslunni í verð. Iðnaðurinn hefur því í sumu sérstöðu um þörf til rekstrarlána, og gengislækkunin hefur gert hana hærri en áður var. Ég held því, að flestir geti verið sammála um, að brýna nauðsyn ber til að greiða sem fyrst úr þessum lánamálum iðnaðarins. Eins og sakir standa, þá er enginn banki, sem telur það skyldu sína sérstaklega að veita fyrirgreiðslu í málefnum iðnaðarins, gagnstætt því sem á sér stað um landbúnað og sjávarútveg, sem hafa sér til stuðnings hvor sinn banka, auk þess sem Landsbankinn sinnir einnig að verulegu leyti velferðarmálum útvegsins.

Þegar vel vegnar og lánamarkaðurinn er opinn, eins og raun var á nokkur undanfarin ár, þá kemur þetta ekki að sök. En þegar þrengir að, þá kemur það hart niður á iðnaðinum, að enginn banki skuli vera til, sem telur það sérstaka skyldu sína að veita lán til iðnaðarins. Af þessum sökum er frv. þetta fram komið, og er það lagt fyrir Alþingi af meiri hl. iðnn. í því formi, sem það hafði, er það kom frá iðnaðarmönnum sjálfum.

Að meginefni til fjallar frv. um það, að stofnað verði sérstakt hlutafélag, er heiti Iðnaðarbanki Íslands h/f og hafi aðsetur í Rvík. Stofnfé bankans skal vera 6 milljónir, og af því á iðnaðurinn sjálfur að leggja til 3 milljónir, eða Félag íslenzkra iðnrekenda og Landssamband iðnaðarmanna 1½ millj. hvort. Ríkissjóði er aðeins ætlað að leggja fram 2½ millj., og ½ millj. er gert ráð fyrir, að safnað verði með almennri hlutafjársöfnun innan lands samkvæmt opinberu útboði. Um þetta fjallar 1. kafli frv. Í 2. kafla segir svo fyrir um stjórn og samþykktir félagsins. Varðandi 4. gr. er rétt að benda á, að þar er gert ráð fyrir, að þau ákvæði, sem gilda í hlutafélögum um takmörkun á atkvæðisrétti í 1/5 atkvæðamagns hjá hverjum hluthafa, skuli ekki ná til atkvæða ríkissjóðs. — Þá eru í 5. gr. ákvæði um, að stjórn félagsins skuli kosin með hlutfallskosningu á árlegum aðalfundi og vera skipuð 5 mönnum, og er gert ráð fyrir, að ríkisstjórninni, F. Í. I. og Landssambandi iðnaðarmanna, sem mest leggja til af fé, verði tryggður þar fulltrúi. Þá fjallar 3. kafli frv. um starfshætti bankans, og samkvæmt 10. gr. skal hlutafélagið njóta sömu sérréttinda og Landsbankinn hefur og þar eru til tekin, og eru í grg. með frv. skýringar á því, hvaða réttindi þar er um að ræða. — Loks fjallar svo 4. kafli um iðnlánasjóð, sem gert er ráð fyrir, að bankinn taki að sér og verði þar sérstök deild með aðskildum fjárhag og bókfærslu, samkv. þar að lútandi samningi við iðnaðarmálaráðherra. Yrði það með svipuðum hætti og gildir um fiskveiðasjóð, en hann er samkv. núgildandi lögum undir stjórn Útvegsbankans, en nefnd þriggja manna ákveður lánveitingarnar.

Ég ætla nú, að um þetta frv. þurfi ég ekki að fara fleiri orðum. Hér er um að ræða augljóst nauðsynjamál, sem ég vænti, að mæta megi skilningi og velvild hv. þdm.