01.02.1951
Neðri deild: 59. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í C-deild Alþingistíðinda. (3477)

128. mál, Iðnaðarbanki Íslands

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var hér síðast til umr., en þetta mun vera frh. 2. umr., þá tók ég svo eftir, að umr. væri frestað með tilliti til þess, að iðnn. tæki málið til meðferðar, áður en lengra væri haldið. Frv. er flutt af meiri hl. nefndar og því ekki vísað sérstaklega til nefndar við 1. umr., og þess vegna liggur ekkert nál. fyrir í málinn. Ég skildi það svo, þegar málið var tekið út af dagskrá, að nefndin tæki það til meðferðar. Var gert ráð fyrir því, að af hálfu n. væri gerð grein fyrir málinu. Nú kveður enginn sér hljóðs af hálfu n. til þess að gera grein fyrir málinu. Vil ég skjóta þeirri fyrirspurn til forseta, hvort ekki sé rétt að fresta málinu, þar til nefndin hefur gert grein fyrir því. Hluti nefndarmanna er fjarverandi, og má vera, að það sé ástæðan. En málið hefur verið lítið rætt í þessari deild, og held ég, að ýmsir eða flestir hv. dm. hafi ekki gert sér grein fyrir því, þar sem ekkert nál. liggur fyrir. Hins vegar er hér um stórmál að ræða, stofnun nýs banka. Er æskilegt, að málið fái ýtarlegri meðferð en líkur eru til við þessa umr., þar sem ekkert nál. liggur fyrir. — Á þessu stigi skal ég ekki ræða málið frekar, en skjóta þeirri fyrirspurn til forseta, hvort ekki sé ástæða til að fresta umr., þar sem svona stendur á.