23.02.1951
Neðri deild: 74. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í C-deild Alþingistíðinda. (3490)

128. mál, Iðnaðarbanki Íslands

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Úr því að þetta frv. er komið hér til 3. umr., þykir mér rétt að fara um það örfáum orðum, áður en meðferð þess lýkur hér í hv. þd.

Í sambandi við þetta mál hefur verið sagt af forgöngumönnum þess, að iðnfyrirtækin í landinu hafi orðið nokkuð afskipt um lánveitingar frá lánsstofnunum, borið saman við aðra atvinnuvegi. Og hefur mér skilizt, að það væri einkum til þess að rétta hlut iðnaðarins, sem frv. þetta hefði verið flutt um stofnun sérstaks banka fyrir iðnaðinn.

Út af þessu vil ég benda á það, að alveg nýlega hefur komið grg., sem birzt hefur í blöðum, frá framkvæmdastjórn Landsbankans, varðandi þetta mál. Eru um það gefnar þær upplýsingar, að hjá bönkunum þremur séu nú útlán til iðnaðarins talin um 80 millj. kr. Nokkur stærstu iðnfyrirtæki landsins og þau, sem mest fé hafa til umráða að láni frá bönkunum, eru þó ekki talin með í þessari upphæð. Hér eru t. d. ekki talin lán til Síldarverksmiðja ríkisins, sem framkvæmdastjórn Landsbankans telur 50 millj. kr., og ekki heldur lán til annarra síldarverksmiðja og fiskimjölsverksmiðja, sem nema nokkrum tugum millj. kr. Lán til hraðfrystihúsa og fyrirtækja sjávarútvegsins eru ekki heldur tekin með. En vitað er, að þessi fyrirtæki hafa mikið fé að láni frá bönkunum. — Af þessu virðist mér ljóst, sem betur fer, vil ég segja, að bankarnir hafa gert sér far um að bæta úr lánsfjárþörf iðnaðarins, eins og annarra atvinnugreina, eftir því sem tiltækilegt var á hverjum tíma. Og virðist þetta ekki benda til þess, að þessi atvinnuvegur hafi átt þar neitt litlum skilningi að mæta. Þetta fannst mér ástæða til að nefna, áður en meðferð málsins verður lokið.

Um frv. sjálft er það að segja, að það skiptir sennilega ekki miklu máli, hver afgreiðsla þessarar hv. d. verður á því. Það lá fyrir þegar í upphafi, að sjálfir flm. frv. gerðu ekki ráð fyrir, að það mundi fá fullnaðarafgreiðslu á þessu þingi, og liggur það fyrir nú, að svo muni ekki verða. — Eins og kunnugt er, þá eru bankamálin nú til endurskoðunar hjá hæstv. ríkisstjórn. Og meðan á þeirri endurskoðun stendur, er vitaskuld ekki tímabært að setja hér lög um sérstakan banka, og þess er að vænta, að við þá endurskoðun verði tekið tillit til þarfa iðnaðarins, eins og annarra atvinnugreina. Ég vil einnig benda á það, að við hv. þm. Mýr. lögðum fram í Sþ. fyrir nokkru till. til þál. á þskj. 296 um lánsfjárútvegun til iðnaðarins, þar sem lagt er til, að ríkisstj. verði falið að taka þetta mál til athugunar, hvernig iðnaðinum verði bezt séð fyrir lánsfé og hvort heppilegt sé og framkvæmanlegt að stofna sérstakan iðnaðarbanka. Þessi till. er nú í n. í Sþ., og ég teldi heppilegt, að hún næði fram að ganga nú á þessu þingi, því að með því mundi Alþ. undirstrika vilja sinn á því, að þarfir iðnaðarins yrðu hafðar sérstaklega fyrir augum af hæstv. ríkisstj. og þeim, sem vinna að endurskoðun bankakerfisins. Þessa leið tel ég vænlegasta til framdráttar þessu máli, þar sem líka er ljóst, að þetta frv. nær nú ekki fram að ganga.