23.02.1951
Neðri deild: 74. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í C-deild Alþingistíðinda. (3496)

128. mál, Iðnaðarbanki Íslands

Emil Jónsson:

Herra forseti. Hv. þm. V-Húnv. hafði það helzt við mína ræðu að athuga, að hún væri skætingur, og taldi það ekki vænlegt málinu til framdráttar, en ég veit ekki annað en einmitt þessi skætingur hafi verið rétt lýsing á framkomu hans í málinu til þessa. — Hann hefur rétt frá skýrt, þegar hann sagði, að hann hefði ekki tekið til máls um þetta mál fyrr en nú, en eins og ég benti á, hefur hann hvað eftir annað óskað eftir því við hæstv. forseta, að málinu yrði frestað, og beinlínis fyrir hans tilverknað hefur málið dvalizt.

Hv. þm. sagði, og þar er einmitt komið að kjarna málsins, að hann teldi það spurningu, hvert gagn iðnaðinum væri að þessari bankastofnun. Hann dregur það í efa og vill því ekki samþ. frv. Þar er kjarni málsins, og það er heiðarleg afstaða. Hann er á móti framgangi málsins. Þá er málið upplýst frá hans hendi og hans afstaða skýr, og um það er þá raunar ekki meira að segja.

Hv. þm. sagði, að ég hefði verið ráðh. í 5 ár, og þá hefði ekki verið bót í þessum banka. Það er rétt, að ég fór með þá stjórnardeild í 5 ár, og einmitt á þeim árum var þetta frv. undirbúið. Ég ræddi þetta mál þá allýtarlega við iðnaðarmenn, þeir lögðu það fyrir sín landssamtök til athugunar, og árangurinn af þeirri athugun er málið í því formi, sem það er nú. Ég hef því ekki lagzt á móti málinu, heldur ýtt undir það, og nú er málið fram komið, að vísu ekki fyrr en svo, að búið er að ræða það og athuga frá öllum hliðum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að deila frekar við hv. þm. V-Húnv. Það eru komin fram rök og gagnrök í málinu og ekki ástæða til að fara að telja það með málalengingum.