23.02.1951
Neðri deild: 74. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í C-deild Alþingistíðinda. (3499)

128. mál, Iðnaðarbanki Íslands

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég vil aðeins benda á það, að mál þetta er ekki óundirbúið, eins og skilja mátti á ræðu hv. þm. V-Húnv. Eins og hv. þm. Hafnf. hefur þegar tekið fram, var það á árinu 1948, sem viðræður hófust um þetta mál. Í grg. frá landssambandi íslenzkra iðnrekenda kemur það fram, að á sumrinu 1948 hafi iðnmrh. skrifað landssambandinu og beðið það að semja frv. um iðnaðarbanka. Síðan var þetta mál athugað, og ég tel rétt að undirstrika það við hv. þm., að þetta mál var vandlega athugað og undirbúið af færum mönnum.

Sú athugun og endurskoðun á bankakerfinu, sem stendur yfir, gengur út á það, hvort stofna eigi sérstakan seðlabanka eða ekki. Ég sé ekki, að sú athugun, hver sem niðurstaðan verður, skipti máli um það atriði, hvort einum bankanum er fleira eða færra í landinu. Af þeirri ástæðu get ég ekki fallizt á, að nauðsynlegt sé að fresta þessu máli vegna þessarar athugunar.