11.01.1951
Neðri deild: 47. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í C-deild Alþingistíðinda. (3509)

137. mál, fasteignamat

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Hv. fjhn. hefur tekið að sér flutning þessa máls fyrir fjmrn., en efni máls þessa er, að fram fari endurskoðun á fasteignamatinu frá 1942. Þetta fasteignamat er orðið úrelt á margan hátt vegna þeirra margvíslegu breytinga, sem orðið hafa hér á landi síðan það var gert. Það er ekki hugsað þannig, að ný skoðun fari fram á hverri eign, heldur verði eftir þeim gögnum, sem auðvelt á að vera að afla, athugað, hvaða breytingar hafa orðið á hverri eign, og nýtt mat þannig gert með hliðsjón af því gamla. Þetta er hugsað að fari þannig fram, að þriggja manna n. sé sett til að gera matið og hún sendi endurskoðað mat sitt heim í hvert hérað, og þar geti menn skoðað það og gert athugasemdir varðandi þær breyt., sem n. hefur gert. — Þetta hefur kannske ekki verið skoðað ofan í kjölinn af hv. n., en ekki mun venja, að máli fram bornu af n. sé vísað til hennar aftur, og geri ég það því ekki að till. minni. Hins vegar teldi ég rétt, að hæstv. forseti hefði talsvert hlé milli 1. og 2. umr., og gæti n. þá tekið málið til meðferðar og gert sínar brtt., ef henni sýndist svo. Eins teldi ég æskilegt, ef einstakir þm. hefðu einhverjar brtt. fram að færa, að þær kæmu fram þá.