11.01.1951
Neðri deild: 47. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í C-deild Alþingistíðinda. (3511)

137. mál, fasteignamat

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru aðeins lítils háttar aths., sem mig langar til að gera við frv. á þessu stigi málsins, og þá helzt til ábendingar fyrir þá n., sem fær málið til meðferðar.

Ég skil vel tilgang frv. og afstöðu fjmrh. og viðurkenni hana í alla staði. Það er æskilegt, að þetta mál sé framkvæmt þannig, að af því verði sem minnstur kostnaður. Það er ekki heldur eðlilegt, eins og nú er orðið, að þeir, sem eiga fasteignir, skuli vera allt öðruvísi settir en þeir, sem eiga peninga, þar sem þeir, sem eiga fasteignir, greiða í raun og veru miklu lægri gjöld í allar áttir en þeir, sem eiga eignir sínar eingöngu í peningum. Þetta verður maður að viðurkenna að er óeðlilegt, en í þessu efni hefur myndazt rangsleitni á undanförnum árum. En það verður einnig að gæta þess að því er snertir alla framleiðslu, og gildir það ekki hvað sízt um landbúnaðinn, að það er mikið atriði, að fasteignir séu ekki pressaðar upp í verði úr hófi fram. Það skapar marga erfiðleika, sem við höfum nóga fyrir nú.

Það atriði, sem ég vildi sérstaklega taka til athugunar og ég tel vera mjög illa gengið frá í frv., er það, að þessi þriggja manna n., búsett hér suður í Rvík, hefur enga aðstöðu til að dæma um það, hvert verðgildi jarðanna sé með tilliti til samgangna og annarra hluta. Nú vitum við það vel, sem erum kunnugir í sveitunum, að það getur verið mikill verðmismunur á því, hvernig jörð eða hús eru setin, því að sumar jarðir eru þannig setnar, að þær eru kannski ekki meira en svo seljanlegar fyrir það fasteignamat, sem nú er, en aðrar jarðir eru seldar á margföldu fasteignamatsverði. Þetta geta engir þrír menn metið, sem eru búsettir hér suður í Rvík. Nú skilst mér, að þetta eigi að senda heim í sveitirnar aftur, þegar búið er að gera nokkurt frummat. Vitanlega mundu þeir menn gefa upplýsingar um þetta, en ég óttast, að það mundi skorta það samræmi milli sveita, sem nauðsynlega þarf að vera. Til þess þyrfti að gefa út einhverjar ákveðnar reglur til þess að fara eftir, sem væru vel útbúnar, þannig að allir hefðu einhver viss grundvallaratriði til að fara eftir og gætu miðað sínar till. við það. Mundi með því móti vera hægt að koma í veg fyrir ósamræmi, sem gæti orðið þess valdandi, að slíkt mat sem þetta yrði talið fráleitt og yrði í raun og veru að gera það upp aftur, þegar séð væri endanlega, hvernig það kæmi út, því að ég geri ekki mikið úr því, þó að mönnum sé heimilt að kæra yfirmat. Það er nú svo, einn fylgist vandlega með þessu, hann kærir, en svo getur farið, að aðrir fylgist alls ekki með þessu og geri ekkert, og verða þeir þá að sitja með það mat, sem á hefur verið lagt, og yfirmatsn. í Rvík kann að halda, að allt sé þá í lagi, úr því að ekki er kært. Ég álít því, að það sé ástæða fyrir n. til að breyta til, og má vel vera, að nefndir heima fyrir þurfi að segja til um það, hvaða búskaparskilyrði séu á hverri jörð, svo að n. geti þegar í upphafi miðað sitt mat og sínar till. við það, og síðan fái þeir menn, sem með þetta hafa að gera, till. til frekari athugunar.

Ég held, að það sé svo ekki fleira, sem ég sé ástæðu til að taka fram á þessu stigi. Ég fel, að ekki verði hjá því komizt að gera á þessu breyt. frá því, sem nú er, því að eins og sakir standa, þá er þetta í raun og veru alveg óviðunandi.