11.01.1951
Neðri deild: 47. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í C-deild Alþingistíðinda. (3512)

137. mál, fasteignamat

Jón Pálmason:

Herra forseti. Mér þykir nú ástæða til að segja fáein orð um þetta mál, áður en það gengur til 2. umr., og geri ég ráð fyrir, að fjhn., sem sjálfsagt fær það til meðferðar, hugsi sig tvisvar um, áður en hún mælir með því, að það verði samþ. í þeirri mynd, sem það nú er í. — Í 1. frá 12. apríl 1945 er svo ákveðið, að fasteignamat skuli fara fram á 25 ára fresti. Með þeim l. var sú breyt. á gerð, að þessi frestur var lengdur úr 10 árum í 25 ár, og orsökin til þess, að sú breyt. var gerð, var einkum tvenns konar: Í fyrsta lagi sú, að menn voru þá þeirrar skoðunar, að fasteignamat væri svo þýðingarmikill hlutur, að það yrði að gera það vandlega, svo vandlega, að ekki væri ástæða að gera það oftar en á 25 ára fresti. Í öðru lagi ofbauð þm. svo mikið kostnaðurinn, sem varð við síðasta fasteignamat, en hann varð mikið á aðra milljón króna. Ég man þetta að vísu ekki nákvæmlega, en kostnaðurinn varð talsvert á aðra milljón kr. Að stofna til þess nú, eftir 8 ár frá því að þetta fasteignamat gekk í gildi, að fara að hefja nú nýtt fasteignamat, það finnst mér, með öllum þeim kostnaði, sem því fylgir, ákaflega vafasamt mál, og ég fyrir mitt leyti verð að fá einhver sterkari rök fyrir því, að þetta sé nauðsynlegt, en fram að þessu hafa komið fram, til þess að geta orðið því samþykkur. Ég ítreka það og tek undir með hv. 1. þm. Árn. og hv. 2. þm. Skagf., að þegar breyta á fasteignamatinu, verður að undirbúa það vandlega, og verður að taka þar marga hluti til greina, sem ástæða er til að athuga, og yrði þetta það mikið verk, að það mundi nú ekki kosta á aðra milljón, heldur margar milljónir, og það mundi éta upp margra ára tekjur ríkisins, sem fást af fasteignaskattinum. Nú er fasteignaskatturinn áætlaður á þeim fjári., sem nú gilda fyrir þetta ár, á 7. hundrað þús. kr., og það þarf því ekki að vera ákaflega dýrt að éta upp nokkurra ára tekjur af fasteignaskatti. Hins vegar má telja eðlilegt, að hækkað verði fasteignamat, því að það er orðið í ósamræmi við verðgildi peninga og aðrar eignir. Ég tek undir með hv. 1. þm. Árn., að það tekur auðvitað engu tali að færa fasteignamat í samræmi við söluverð einstakra eigna, eins og það er nú, enda má þar mikið á milli vera, og þó að fasteignamat það, sem nú gildir, væri margfaldað með tveim, — ég tel, að of mikið væri að margfalda það með þremur, — þá tel ég, að það mundi laga þetta mikið, en hins vegar ekki hafa í för með sér mikinn kostnað, en mat á þeim fasteignum, sem væru í eyði, mætti hafa óbreytt. Viðvíkjandi öðrum ástæðum en hækkun á verðgildi peninga til þess, að eignir hafa hækkað í verði, t. d. hafa orðið hér miklar framkvæmdir á ýmsum sviðum, þá er því til að svara, sem hv. 2. þm. Skagf. gat um áðan, að varðandi allar húsabyggingar fara fram árleg millimöt í hverri sveit, kaupstað og kauptúni á öllum nýbyggingum, svo að möt á þeim koma árlega í samræmi við annað fasteignamat í landinu. Eins er um jarðabætur og girðingar, að um þær má fá skýrslur frá Búnaðarfélagi Íslands, og ef nauðsynlegt þætti að breyta mati á jörð eða lendum vegna jarðabóta, þá er það auðvelt með því móti að fá um það till. frá Búnaðarfélaginu, án þess að setja upp svo stórt og fjárfrekt bákn eins og verið er að gera með frv. þessu; slíkt þyrfti á engan hátt að vera dýrt, en það mat mundi vera byggt á sama grunni og núverandi fasteignamat. Möt eru að vísu mismunandi, og ég geri eins ráð fyrir, að eitthvað megi selja út á síðasta fasteignamat hér, en ég tel samt sem áður réttara að láta það gilda sem grundvöll og færa það aðeins upp heldur en að eyða milljónum króna til stofnunar, sem sæi um nýtt fasteignamat. — Þá er svo illa frá þessu frv. gengið og það svo ófullkomið, að engin grein er þar um, að l. frá 1945 skuli breytt með því, þó að um sé að ræða gerbreytingu á þeim lögum. Ég vil því mjög eindregið fara fram á það, að hv. þdm. athugi rækilega áður en þeir samþ. þetta frv., hvort ekki sé hægt að komast hjá að stofna til nýs mats á þeim grundvelli, sem frv. gerir ráð fyrir, en byggja í þess stað á núverandi fasteignamati og millimötum, sem fara fram árlega, og láta þar við sitja.