16.01.1951
Neðri deild: 50. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í C-deild Alþingistíðinda. (3516)

137. mál, fasteignamat

Pétur Ottesen:

Ég vildi, áður en þetta mál verður að nýju tekið til athugunar í fjhn., sem hefur flutt málið fyrir hæstv. fjmrh., fara um það nokkrum orðum.

Hæstv. fjmrh. hélt því nú reyndar fram hér, þegar hann ræddi um þetta mál, að hér væri Ekki um raunverulegt fasteignamat að ræða í venjulegum skilningi. Þetta get ég ekki fallizt á, enda hefur komið fram í þeirri ræðu, sem hv. þm. Mýr. hefur haldið nú um þetta mál, þegar hann reifaði það hér, — sem ég því miður gat ekki hlustað á nema að nokkru leyti, því að ég varð að hverfa frá í síma vegna viðtals utan af landi, — það kom þá skýrt fram hjá hv. þm. Mýr., að hér er um rangt fasteignamat að ræða. Með öðrum orðum, hér á að fara fram sérstakt mat á hverri eign í landinu, eins og venja hefur verið að framkvæma bæði að fornu og nýju. Það er einmitt það, sem hefur gefið mér tilefni til þess að láta hér í ljós þá skoðun, að með þessu frv. sé stefnt út á mjög varhugaverða braut.

Öll þau fasteignamöt, sem framkvæmd hafa verið hér á landi, hafa verið bundin við persónulegan kunnugleika á þeim staðháttum, sem um hefur verið að ræða. Og við fasteignamatið, sem fór fram um aldamótin 1100, ferðuðust menn um landið, héldu fundi í hreppunum og kvöddu þar á sinn fund kunnuga menn til þess að fá sem skýrast yfirlit yfir fasteignirnar og ásigkomulag þeirra. Þau fasteignamöt, sem framkvæmd hafa verið síðan 1916 — en þá var tekinn upp nýr háttur í sambandi við fasteignamatið — hafa verið byggð á persónulegum kunnugleika úti um allar byggðir þessa lands. Kosnar hafa verið þriggja manna nefndir í hverri sýslu og hverjum kaupstað, sem hafa haft þetta með höndum. Tveir nefndarmanna hafa verið til kvaddir af viðkomandi sýslufélagi, en einn af þeim ráðh., sem þetta heyrði undir. Með þessum hætti var hægt að leggja til grundvallar persónulegan kunnugleika á þeim staðháttum, sem þarna var um að ræða. Auk þess var þessu hagað þannig, að til þess að fá sem fullkomnast heildarsamræmi í matið, var látið gera mat á hverjum stað fyrir sig yfir heil sýslufélög. En með því að fela þetta þremur mönnum í hverju sýslufélagi ætti að fást trygging fyrir því, að heildarsamræmi fengist í matið í hverju sýslufélagi og þau þröngu og einskorðuðu sjónarmið, sem hætt er alltaf við, ef menn úr hverjum hreppi hafa þetta með höndum, væru að verulegu leyti útilokuð. Þess vegna er mín skoðun sú, að ef á að hefja fasteignamat að nýju, þá vanti í þetta frv. þá undirstöðu undir málið, sem nauðsynleg er, en það er, að matið byggist á persónulegum kunnugleika og þekkingu á hinum raunverulegu verðmætum hverrar fasteignar, og á það alveg sérstaklega við um sveitir landsins. En ég fyrir mitt leyti get ekki gengið inn á, að þær verði neinar hornrekur hvað þetta snertir í þeim ákvæðum, sem sett verða um nýtt fasteignamat.

Nú er hér í þessu frv. miðað við allt annað fyrirkomulag en áður var haft, því að nú eiga 3 menn, sem sitji í Reykjavík, að leggja grundvöll að þessu fasteignamati, því að eftir frv. er það fyrst eftir að þeir eru búnir að ákveða fast verð á hverri einustu fasteign í landinu, að leggja á þetta mat fyrir hreppsn. óg gefa þeim tækifæri til þess að gera sínar athugasemdir við það. M. ö. o., það á að gefa hreppsn., með þeim þröngu sjónarmiðum, sem hætt er við, að komi þar fram, tækifæri til þess að láta sínar skoðanir koma fram, en algerlega horfíð frá þeirri meginreglu, sem fylgt hefur verið um fasteignamat að undanförnu. En á þeim tíma hafa þær athugasemdir, sem af hálfu þess opinbera hafa verið gerðar við fasteignamatið, aldrei gengið út á það að raska því innbyrðis samræmi í matinu, sem hefur verið þar frá hendi fasteignamatsn. Breytingarnar hafa verið fólgnar í því að hækka nokkuð heildarmatið, og þær breytingar einar hafa verið á þessu gerðar af yfirfasteignamatsn. að undanförnu. Ég tel þess vegna, að með þessu frv. og með því að ætla sér að hafa alveg endaskipti á hlutunum frá því, sem hefur verið að undanförnu, sé gengið alveg í öfuga átt og það megi ekki stofna til almenns fasteignamats þannig, að svo ótryggilega sé um hnútana búið í þessu efni.

Nú vitum við, að með þeirri breytingu, sem hefur orðið á síðustu árum að ýmsu leyti viðkomandi atvinnuástandi í landinu, er mjög mikill aðstöðumunur í hinum einstöku sýslufélögum um það, hvað fasteignir gefa raunverulega mikinn arð þeim, sem þær nytja. Nú það er sá grundvöllur, sem má leggja áherzlu á viðkomandi mati, hvað þessar fasteignir gefa raunverulega mikið verðmæti í arð og hvaða verulega mikinn arð þeim, sem þær nytja. En er orðin mikil breyt. á þessu. Samgöngur hafa miklu meiri þýðingu nú viðkomandi verðgildi jarða en áður var. Auk þess er ýmiss konar tekjur af jörðum nú hægt að hafa, sem ekki var áður, og er sú breyt. orðin fyrir breytta rás viðburðanna, þannig að lagður er á ýmsar jarðir þess vegna allt annar mælikvarði viðkomandi verðgildi þeirra en áður var. En það er ekki á neinna færi annarra en kunnugra að leggja rétt mat á þau verðmæti jarða, sem telja má og sjálfsagt er, að séu grundvöllur fyrir það mat, sem hér á að fara fram. Þess vegna er alveg réttilega á það bent af hv. 1. þm. Árn., að grundvöllinn að þessu mati á að leggja heima fyrir í héruðum, en hann á ekki að leggja með því fyrirkomulagi, sem hér er að stefnt í þessu frv., að menn í hverjum hreppi fari að gera þar till. um, heldur á að halda sig á þeim grundvelli, sem þrautreyndur er orðinn og hefur gefið góða raun að því er samræmi í fasteignamatinu snertir, að fela þetta þremur mönnum í hverju sýslufélagi. Með því fæst miklu meira öryggi um, að samræmi fáist í matið. — Það er því bæði með byrjun og endi þessa frv. stefnt í öfuga átt við það, sem vera skyldi, og við það, sem gert hefur verið með góðum árangri að undanförnu. Og það er þetta, sem ég hef við þetta frv. að athuga, og þá sérstaklega frá sjónarmiði sveitanna. Ég fyrir mitt leyti get því ekki undir neinum kringumstæðum gengið inn á það fyrirkomulag, sem í frv. þessu felst um nýtt fasteignamat.

Það voru nú gefnar hér á fyrra stigi þessarar umr. upplýsingar um það, hvað fasteignamatið hefði kostað síðast og að það hefði kostað hátt á aðra millj. kr. Nú skilst mér, að hv. þm. Mýr. hafi gefið hér upplýsingar um allmiklu lægri upphæð í þessu sambandi, sem sé í kringum eina millj. kr., sem hann telur, að þetta fasteignamat hafi kostað þá. Ég held þess vegna, að við eigum að fresta því, af þeim ástæðum, sem ég hef lýst, að hefja framkvæmd nýs fasteignamats, þangað til við höfum ráð á að gera það með sama hætti og verið hefur. Og ég tel þá upphæð, sem síðasta fasteignamat hefur kostað, ekki neitt fráfælandi viðkomandi því að hefja nýtt fasteignamat á þeim grundvelli.

Hitt er fyrir mér aðalatriðið, að þannig sé til fasteignamatsins stofnað, að sá grundvöllur, sem þar er lagður fyrir skattálagningu á almenning, sé ekki ósanngjarn, eftir því sem efni standa til. En þetta frv., sem hér liggur fyrir, er þannig byggt, að engin trygging er fyrir því, að nokkurt samræmi verði um þessa hluti, og þess vegna teldi ég mjög ógætilega að farið, ef ætti að framkvæma matið á þeim grundvelli, sem hér í frv. liggur fyrir.

Það hefur nú verið mjög mikið um það talað, og má til sanns vegar færa, að þær breyt., sem hafa orðið á okkar þjóðfélagsháttum, geri það að verkum, að fasteignamatið, sem staðfest var 1942, sé orðið úrelt og að þar þurfi breyt. á. Ég fyrir mitt leyti get vel gengið inn á það, enda hefur þegar — og það ekki alls fyrir löngu — í sambandi við stóreignaskattinn svo nefnda verið lagður allt annar mælikvarði á fasteignir en sá, sem fasteignamatið segir til um, nefnilega sá, að fasteignir skyldu hækka í mati í því tilfelli upp í þrefalt verð á við bókað fasteignamatsverð og í sumum tilfellum miklu meira, allt upp í sexfalt það verð mest, og var þetta mismunandi hækkað eftir því, hvar á landinu var.

Mér skilst, — og ég held, að ég hafi skilið það rétt, — að hv. þm. Mýr. hafi haldið því fram hér, að út frá því mætti ganga, að þetta nýja mat á fasteignum, sem hér er stefnt til með þessu frv., ætti að gefa allt að 5 millj. kr. í aðra hönd fyrir það opinbera. Nú er á fjárl. fasteignaskatturinn reiknaður 700 þús. kr. Má sjá af því, hve hér er gerð mikil breyt. á í sambandi við hið nýja fasteignamat, ef frv. verður samþ. Og þegar á að ganga svona langt, eins og virðist eiga að gera með frv. þessu, þá virðist mér enn þá meiri ástæða vera til að undirbyggja fasteignamatið vel og örugglega, þannig að samræmi verði í því um allt land. En það samræmi fæst ekki með þeim ákvæðum, sem í frv. eru, því að þar er byrjað á öfugum enda. Eftir ákvæðum frv. er það þannig, að þegar á að sækja upplýsingar utan úr sveitum landsins um fasteignir þar, þá á að gripa niður um öflun þeirra á þann veg, að ekki verður stuðningur að þeim að því er við kemur öryggi um samræmi í matinu, enda færði hv. þm. Mýr. það — heyrðist mér — fram sem sérstök andmæli gegn bendingum hv. 1. þm. Árn., að svo mikið ósamræmi mundi verða í till. frá hreppsnefndum, að ekki mundi vera hyggilegt að byggja á þeim sem grundvelli fyrir fasteignamatið. Um þetta get ég verið sammála hv. þm. Mýr. En það er sama, á hvaða stigi leitað er álits þessara aðila, þannig að það er sama glundroðahættan, sem vofir alltaf yfir með því að fara svo að.

Hv. þm. Mýr. talaði mikið um eignatilflutning í sambandi við þetta. Það er rétt, að fasteignamatið er orðið í ósamræmi við ýmislegt. Þó er þetta ákaflega mismunandi ettir því, hvar er á landinu. Í afskekktum byggðum í sveitum hefur ekki ýkja mikill tilflutningur orðið í þessu sambandi. (BÁ: Ég benti líka á það.) Þar hefur ekki orðið mjög mikill tilflutningur á eignum manna í framtali eftir því, hvort menn eiga fasteignir eða peninga, því að það eru til ýmis dæmi þess úti um byggðir landsins og sérstaklega þar, sem afskekkt er, að það er ekki hægt að selja þær fasteignir, sem þar eru, ef þær eru seljanlegar, fyrir hliðstætt verð og aðrar fasteignir og í sumum tilfellum ekki yfir fasteignamatsverði. En það er yfirleitt ekki á færi annarra manna en þeirra, sem heima eiga í þessum byggðarlögum, að gefa um þetta öruggar upplýsingar. Þess vegna er það, að ef á að fá góða undirstöðu að nýju fasteignamati, þá verður að byggja það upp á sama fyrirkomulagi og við höfum búið við. Fasteignamatsnefndarmennirnir, sem við það hafa fengizt og hafa verið sömu mennirnir víðast hvar um lengri tíma, eru búnir að fá nokkra leikni og þjálfun í sambandi við þetta mat.

Hv. þm. Mýr. talaði um það, hvað aðstaða manna væri mismunandi í sambandi við skattlagninguna yfirleitt eftir því, hvort þeir ættu fasteignir eða peninga, og fasteignaeigendur bæru léttari skatta. Má þetta vel vera. Þó hefur verið litið svo á, að þeir, sem peninga eiga, hefðu ýmis undanfæri í sambandi við skattlagningu. Og mér skilst, að með eignakönnuninni hafi það sannazt. Og þegar verið er að bera þetta tvennt saman, þá er rétt að taka tillit til þess, sem raunverulegt er í þessu efni og óneitanleg dæmi hafa sannað, að raunverulegt er.

Ég held þess vegna, að hyggilegast væri, þangað til ráðizt verður í nýtt fasteignamat, —en það má engan veginn gera á þeim grundvelli, sem í þessu frv. er gert ráð fyrir, þar verður að hafa á allt annan hátt, — að fara þá leið að gera einhverja bráðabirgðabreyt. á fasteignamatinu, líkt og gert var í sambandi við stóreignaskattinn, þó að með öðrum hætti væri, þannig að ekki væri svipað því jafnlangt gengið og þá var. Það er nú svo eftir l., að hvað húsabyggingar snertir og annað, sem eykur verðgildi jarða, þá eiga að liggja fyrir á hverjum tíma upplýsingar um það. Og þetta á að gerast árlega. Það er þá vegna slælegrar framkvæmdar á eftirliti, ef svo er ekki gert. Það er á valdi fjmrn. að ganga eftir því, að þetta sé gert í hverjum einasta hreppi. Og yfirleitt mun þetta vera gert, og mun yfirleitt hafa færzt í betra horf um framkvæmdir í þessu efni nú síðustu árin. Viðkomandi mati á þeim verðmætabreyt., sem orðið hafa í sambandi við aukna ræktun, þá ætti ekki að vera ákaflega mikið verk að fá nokkrar upplýsingag. í því efni, þar sem skýrslur um þetta eru árlega gerðar og liggja fyrir m. a. hjá Búnaðarfélagi Íslands. Er þess vegna hægt að fá svipað yfirlit yfir þær breyt., sem hafa orðið í þessu efni, eins og gert er ráð fyrir, að hægt sé að afla og afla á viðkomandi millimötum á húsum. Hitt er svo annað atriði, að þessar framkvæmdir hafa ákaflega mismunandi áhrif í sambandi við eignir þessar viðkomandi hæfni þeirra sem gjaldstofna, því að bæði eru allar slíkar ræktunarframkvæmdir ekki jafnarðgæfar í sjálfum sér, og auk þess fer það eftir legu jarðanna, hvaða raunhæf verðmæti þar er um að ræða.

Mér finnst þess vegna rétt, ef það þykir ekki gerlegt að ráðast nú í fasteignamat, sem byggt sé á því sama fyrirkomulagi og áður hefur verið, — og ef l. um þetta hefði ekki verið breytt 1945, þá ætti það að fara fram eftir tvö ár, — að þangað til væru gerðar breyt. á fasteignamatinu í sambandi við skattlagningu, t. d. að tvöfalda það eða þrefalda í sambandi við skattinn, og þá e. t. v. mismunandi eftir því, hvort væri í sveitum eða kaupstöðum, en svo væri farið að undirbúa það að hefja nýtt fasteignamat, þar sem ekki væri óörugglegar um búið en gert er í gildandi fasteignamatslögum. Ég vildi þess vegna skjóta því til hv. n., sem fær málið til athugunar, hvort ekki væri ástæða til að gera nú slíkar ráðstafanir, sem gert væri ráð fyrir að giltu í tvö til fjögur ár, því að fasteignamatið tekur náttúrlega nokkurn tíma, og gæti fjmrn. þá sennilega í því efni stuðzt við skattanefndir, ef ástæða þætti til, um upplýsingar um þessi efni, því að það er þannig, að það má vænta frá þeim rýmra sjónarmiðs en vænta mætti með því að leggja þetta fyrir hreppsnefndir. Ég vildi skjóta því fram, hvort ekki væri ástæða til, að hv. n. athugaði í samráði við Alþ. og ríkisstj., hvort ekki væri rétt að taka málið upp á þessum grundvelli, því að mér finnst, að það geti bara alls ekki komið til mála að fara að gera slíka breyt. á fasteignamatinu sem hér er stefnt til, því að hér mundi um nýtt fasteignamat vera að ræða, með þeim umbúnaði, að grundvöllinn eigi að leggja að matinu hér í Reykjavík og svo eigi að leita umsagnar hreppsnefndanna úti um landið. Það álít ég vera allótraustan grundvöll undir fasteignamatið og þess vegna beri að fresta framkvæmdum í stórum stíl, þar til fært þykir að leggja út í að hefja öruggt fasteignamat og þá á svipuðum grundvelli og tíðkazt hefur síðan 1916, er hafizt var handa um fasteignamat á þeim grundvelli, sem gilt hefur síðan.

Það má segja, að þessar aths. mínar miðist meir við aðstöðuna úti um sveitir landsins en kannske í kaupstöðunum. En það er vissulega atriði, sem ekki má heldur missa sjónar á, að fullkomið samræmi geti orðið í fasteignamatinu úti um landið. Það er meiri vandhæfni á því um fasteignir þar að ná þessu samræmi. En það liggur miklu opnar fyrir að meta hús í kaupstöðunum. Það þekki ég af reynslu í báðum þessum tilfellum.