05.03.1951
Neðri deild: 82. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í C-deild Alþingistíðinda. (3523)

137. mál, fasteignamat

Jón Pálmason:

Herra forseti. Við 1. umr. um þetta mál lét ég í ljós þá skoðun mína, að ég vildi halda mig við þau lög, sem selt hafa verið um það, að nýtt fasteignamat skuli fara fram á 25 ára fresti. Ég var einn af aðalhvatamönnunum að þeirri lagasetningu, og ég vil halda mig við þau lög áfram. Það að hafa slíkt mat á tíu ára fresti tel ég allt of dýrt, auk þess sem það er óþarft, og ég sé enga ástæðu til, að það sé gert.

Nú hefur fjhn. lagt fram brtt. við þetta frv., eins og hv. þm. V-Húnv. hefur lýst, og má segja, að þar sé um að ræða algerlega nýtt frv., og þess vegna rangt að segja, að þar sé um endurskoðun á fasteignamatinu að ræða, þar sem í því er gert ráð fyrir því, að fasteignamat fari fram á tíu ára fresti, og er þess vegna alveg annars eðlis en það, sem samþykkt var 1945. En þar er ákveðið svo, að breyta megi fasteignamatinu í hlutfalli við þær verðlagsbreyt., sem orðið hafa, ef Alþingi ákveður svo.

Nú höfum við hv. 2. þm. Skagf. leyft okkur að flytja brtt. á þskj. 778, sem byggðar eru á þeim grundvelli, að Alþingi sé heimilt að breyta fasteignamatinu hlutfallslega í áttina til hækkaðs verðlags og minnkaðs gildis okkar krónu.

Nú er það svo, að samkvæmt gildandi lögum um fasteignamat er svo ákveðið, að millimat skuli fara fram á hverju ári, og skulu þá teknar út þær jarðræktarframkvæmdir, sem orðið hafa, svo og nýjar byggingar. Hreppstjórum ber skylda til að sjá um, að þetta millimat sé framkvæmt, og mun það auðvitað vera mjög misjafnt, hversu vel þeir rækja það starf. Síðan skal lagt á þessar nýju eignir samkvæmt lögum um fasteignaskatt.

Í fyrstu brtt. okkar er gert ráð fyrir því, að samkvæmt 1. gr. l. nr. 70 frá 12. apríl 1945 skuli fjmrn. vera heimilt að fyrirskipa hækkun á skattmati fasteigna í landinu svo sem nauðsynlegt er vegna breyttrar skatta- og útsvarsálagningar.

Í 2. gr. er gert ráð fyrir því, að verði þetta gert, skuli þrefalda þetta mat í þremur stærstu kaupstöðum landsins, Reykjavík, Hafnarfirði og Akureyri. Við manntalið 1949 voru yfir 54000 manns í Reykjavík, á Akureyri voru 7000 og í Hafnarfirði 4900. Í öllum hinum kaupstöðunum voru miklu færri, í Vestmannaeyjum 3500, og í hinum miklu færri. Kemur þetta til af því, að þar er aðstreymið mest og verðgildi lóða og húsa þess vegna miklu hærra en þar, sem þetta stendur í stað eða er að fækka. Raunar hefur þetta aukizt víðar, og það getur náttúrlega alltaf verið álitamál, hvar setja eigi mörkin. Annars staðar á landinu er gert ráð fyrir, að matið verði tvöfaldað.

Nú skildist mér í þessari umr., og það kom reyndar fram við 1. umr., að ástæða væri til að hækka þetta miklu meira, og var stungið upp á að sexfalda matið. Það tel ég að sé of langt gengið. Þó að breytingar hafi orðið miklar síðan 1942, þá er það atriði þannig vaxið, að fullkomin ástæða er til að fara gætilega í þeim efnum, enda mundi það hafa í för með sér hækkuð útgjöld fyrir almenning. Ef t. d. ætti að greiða miklu hærra gjald af húsum í kaupstöðum, þá mundi það hafa í för með sér stórhækkaða húsaleigu, og ef það yrði hækkað á jörðum, þá hins vegar hækkaða jarðarleigu. Þarna er fullkomin ástæða til að fara varlega, og þarna viljum við ekki láta fara að með neinu flaustri. Hins vegar er það ekkert undarlegt, þó að ágreiningur geti orðið um það hlutfall, sem þarna eigi að hafa, en að öðru leyti er ég sannfærður um, að það er rétt leið að hafa aðalfasteignamat á 25 ára fresti, og það hljóta allir að skilja.

3. brtt. er um það, að undanskilja megi skattmati eyðijarðir og afréttarlönd og hús, sem hætt er að nota. Samkvæmt því er ætlazt til, að engin hækkun verði á slíkum eignum. Í öðru lagi er lagt til, að yfirskattanefndir geti að fengnum till. undirskattanefnda undanskilið hækkuninni þær jarðir, sem mjög eru illa settar með samgöngur eftir þær samgöngubætur, sem orðið hafa síðan fasteignamat fór síðast fram. Það hefur orðið svo, að einstök byggðarlög hafa orðið aftur úr, og það er minni ástæða til að hækka fasteignamat þar en annars staðar, en þetta á sér ekki stað í þéttbýli.

4. brtt. gengur út á það, að fjmrn. gangi fram í því, að allar skattanefndir fylgist vel með því, að millimat sé framkvæmt og að þessir aðilar geri skyldu sína hvað þetta varðar. Það er mjög misjafnt, hvað þessir aðilar hafa gengið vel fram í því að framkvæma millimat á öllum fasteignum, frá því að fasteignamat fór síðast fram.

Þá er ákvæði um jarðabætur, en þær eru teknar út á hverju ári af Búnaðarfélagi Íslands, eins og mönnum mun vera kunnugt. Er ætlazt til þess, að Búnaðarfélagið gefi um þetta skýrslu, svo að hægt sé að meta þessar framkvæmdir svo sem rétt má vera.

Í 5. brtt. er gert ráð fyrir því, að allur fasteignaskattur renni til bæjar- og sýslusjóða, í stað þess að hann hefur áður runnið til ríkissjóðs.

Hv. frsm. fjhn. hefur látið í ljós þá skoðun, að þessi skattur eigi að renna til sveitarfélaga beint, en ekki til sýslufélaganna. Þetta er lítið ágreiningsatriði, því að ef þessi skattur rennur til sýslusjóða, þá léttir hann um leið öðrum útgjöldum af sveitarfélögunum til sýslusjóða, svo að það kemur í sama stað niður. En ég held, að eins og þetta er á þskj. 778, þá sé það einfaldara, að þetta skuli renna beint til sýslusjóðanna, í stað þess að það fari fyrst til sveitarfélaganna og sé síðan greitt til sýslufélaganna í ýmsum gjöldum til þeirra.

6. brtt. er um það, að þessi lög öðlist þegar gildi og komi til framkvæmda við álagningu skatta í ársbyrjun 1952.

7. brtt. er um það, að 7.–15. gr., að báðum meðtöldum, falli brott.

8. brtt. er um það, að fyrirsögn frv. orðist þannig : Frv. til l. um hækkun á skattmati fasteigna.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða meira um þetta að sinni, en vona, að þm. taki þessum brtt. með velvilja.