05.03.1951
Neðri deild: 82. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í C-deild Alþingistíðinda. (3524)

137. mál, fasteignamat

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því, að það er langt síðan þetta frv. var lagt fram, og var það þá flutt að beiðni fjmrh. Þegar í upphafi var talsverður ágreiningur um einstök atriði þess, en að lokum varð sú skoðun ofan á, sem hv. þm. V-Húnv. hélt fram, og kemur hún fram í því nál., sem fjhn. hefur lagt fram um þetta mál. Hins vegar voru skoðanir einstakra nm. svo margvíslegar, að þeir hafa alveg óbundnar hendur hvað viðvíkur þessu nál.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti, að ég hefði óskað að athuga þetta mál miklu nánar en mér hefur hér gefizt kostur á. Fyrst var málinu frestað, og þá taldi ég, að óhætt mundi að fresta einnig þessum athugunum, en svo fór, að ég hafði þær ekki til á skyndifundi n. í fyrradag. Sannast að segja var svo langt síðan þetta mál kom fram og það búið að liggja svo lengi í salti hjá n., að ég hélt, að því væri ekki ætlað fram að ganga, þar sem það er nú tekið fyrir á síðustu dögum þingsins.

Þegar málið var rætt í n. á nýjan leik, óskaði formaður n. eftir því, að við fylgdum því með þeim breytingum, sem fram koma á þskj. 756, og skildist mér þá, að svo naumur tími væri til afgreiðslu þess, að ég skrifaði undir það nál. af þeim sökum, en ekki vegna þess, að ég vildi ekki láta fara fram nánari athugun á þessu máli. Ég hafði haldið, að málið yrði rætt nánar í n., og hafði því ekki sagt mitt síðasta orð um það í n.

Samkvæmt þessum brtt. er svo ráð fyrir gert, að þetta fé, sem fæst með þessum skatti, renni til bæjar- og sveitarfélaga. Ég vil leggja höfuðáherzlu á þessa gr., því að þarna opnast alveg ný tekjugrein fyrir bæjar- og sveitarfélög. Það veldur nú síauknum vanda hjá mörgum bæjar- og sveitarfélögum, hvernig þau verða að standa undir auknum álögum af hendi ríkisvaldsins, og hefur það mál verið mikið rætt á fundum þeirra. Ég tel því mikilsvert, að þetta fé renni til þessara aðila. Nú er það svo, að þetta er ekki áætlað mikið fé, sem fæst með þessum skatti. Það er áætlað um 700 þús. kr. af öllu landinu. En hins vegar, ef þessi skattur er hækkaður mikið, þá er hér um allmikinn tekjustofu að ræða, og það er höfuðatriði, að þetta fé renni til bæjar- og sveitarfélaga, en ekki til ríkissjóðs, þannig fengist þar nýr tekjustofn, og það væri æskilegt, að takast mætti að finna þannig fleiri slíka tekjustofna handa þessum aðilum.

Varðandi brtt. á þskj. 778 frá hv. þm. A-Húnv. og hv. 2. þm. Skagf. vil ég taka það fram, að ég er að mörgu leyti samþykkur þeim og mundi á ýmsan hátt frekar kjósa þær en till. á þskj. 756, og vil ég hafa alveg óbundnar hendur um það, hverjum af þessum till. ég greiði mitt atkv., það fer alveg eftir því, hvernig með þetta mál verður farið við 2. umr.

Hv. þm. V-Húnv. sagði, að ef þessar till. á þskj. 778 yrðu samþykktar, væru þær alveg ófullnægjandi, þar eð ekki væri gert ráð fyrir að hækka fasteignamatið nema þrefalt og tvöfalt. Hér er ég á annarri skoðun en hv. þm. og tel það mjög varhugavert að hlaupa að mikilli hækkun fasteignamatsins vegna mats eigna í sambandi við útsvör og skatta. En ég vil fallast á það, að nú er óeðlilega lágt mat fasteigna miðað við það, að menn eigi aðrar eignir, t. d. peninga, varðandi skattgreiðslur manna af eignum sínum. Ég er að meginefni samþykkur því, að Alþingi ákveði fyrir sitt leyti hlutfallsbreytingar á fasteignamatinu fremur en að stofnað verði til nýs endurmats, án þess að fasteignamatsnefndin eigi að skoða og meta sjálf allar fasteignir. Annaðhvort yrði þá að byrja á nýju fasteignamati eða að Alþingi slægi föstu, hvaða hlutfall yrði á milli fasteignamatsflokkanna. Hér er um að ræða að hafa 3 flokka fasteignamats. En það skiptir ekki aðalmáli, heldur hitt, hvað á að hækka fasteignamatið mikið, og er rétt, að þingið ákveði það. — Þá eru það ekki fleiri atriði, sem ég þarf að taka fram, en vil vekja athygli á því, að innan n. voru skiptar skoðanir um málið, og þótt fjhn. hafi skilað brtt. á þskj. 756, þá vildi ég hafa allan fyrirvara um það að mega fylgja og flytja frekari brtt., ef til kemur.