06.11.1950
Efri deild: 15. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (353)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Eins og gert var ráð fyrir við 2. umr., tók fjhn. fram komnar brtt. til athugunar á fundi sínum fyrir þessa umr. Meiri hl. n. sér sér ekki fært að mæla með þessum brtt., en einn nm., hv. 1. landsk., hefur nokkra sérstöðu, og mun hann væntanlega gera grein fyrir afstöðu sinni. Eins og frv. er eftir 2. umr., þá er það nokkuð sérstaks efnis, heildarlegt og tæmandi, því að það nær yfir alla aðstoð, sem bændur eiga að verða aðnjótandi eftir þetta hrakfallasumar. En brtt. ná hins vegar aðeins til lítils svæðis, þar sem að vísu hefur gengið mjög erfiðlega, en þær eru ekki tæmandi að því er snertir þá menn, sem slíka atvinnu stunda og orðið hafa fyrir skakkaföllum. Það er því dálítið athugavert að samþ. aðstoð til þessara manna, þar sem annars staðar víða hefur orðið atvinnuþrenging hjá stéttarbræðrum þeirra, t.d. mun Siglufjörður jafnan vera talinn í fremstu röð, þegar rætt er um þrengingar fólks við sjávarsíðuna s.l. sumar. Við í meiri hl. teljum ekki viðeigandi að tengja við þetta frv., sem er tæmandi á því sviði, sem því er ætlað að ná til, till. um úrbætur á takmörkuðu svæði, miðað við það, sem maður veit, að erfiðlega hefur gengið með sumaratvinnu. Þá er þess og að gæta, að fyrir sameinuðu þingi liggur till. á þskj. 15 um rannsókn á atvinnuástandinu í kaupstöðum og kauptúnum með tilliti til þess, að þar verði gerðar nokkrar úrbætur, þar sem þeirra kynni að vera þörf. Það virðist eðlilegt, að sú till. verði lögð til grundvallar aðalafgreiðslu þingsins á því máli, og inn undir þá till. geta sem bezt fallið þær till., sem hér í Ed. hafa verið fluttar á þskj. 118. Málinu er því ekki vísað frá Alþingi, þótt till. á þskj. 118 verði ekki samþ. hér í hv. d. — Í fám orðum sagt: Meiri hl. fjhn. getur ekki lagt til að samþ. þær till., af því að þær eru takmarkaðar og engin rannsókn liggur fyrir, sem sýnir, að þessi landshluti sé verr staddur en sumir aðrir, og aðaltill. um málið, sem er víðtæk og tæmandi, biður afgreiðslu í sameinuðu þingi. Þar getur komið fram vilji þingsins á eðlilegan hátt.