29.01.1951
Neðri deild: 57. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í C-deild Alþingistíðinda. (3542)

141. mál, innflutningur búfjár

Frsm. meiri hl. (Bjarni Ásgeirsson) :

Herra forseti. Eins og óskað var við 1. umr. þessa máls, hefur landbn. þessarar deildar tekið þetta mál til venjulegrar meðferðar á milli umræðna, og hefur n. ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins og skilar tveim nefndarálitum. Á þskj. 526 er álit frá meiri hl. og á þskj. 513 er álit minni hl. Það, sem nm. greinir á, er, eins og nefndarálitin bera með sér, að minni hl. er mótfallinn því að flytja inn erlenda nautgripi, en vill þó leyfa að flytja inn erlent búfjársæði. En meiri hl. lítur svo á, að ekki þyrfti að vera meiri hætta í því t. d. að flytja inn nýfædda kálfa, sem einangraðir væru í eyju, heldur en ef flutt yrði inn sæði erlendis frá. Þá þarf að athuga það, að með því móti að flytja inn erlent sæði, tæki það aldrei skemur en 6–7 ár að koma upp nýjum stofni hreinræktuðum. Hins vegar ef fluttir væru inn nýfæddir kálfar og fyllstu varúðar gætt, þá þyrfti ekki að taka nema 1 ár að koma upp nýjum stofni. Hins vegar mundi það taka 12–14 ár, þótt hin leiðin heppnaðist, þangað til búið væri að sæða úr eyjunni og í land. Meiri hl. telur ekki meiri hættu á, að búfjársjúkdómar þurfi að flytjast til landsins, þótt nýfæddir kálfar séu fluttir inn, heldur en með sæðisaðferðinni. N. vill sameiginlega leyfa, að fleiri aðilar en ríkið fái leyfi til þessara tilrauna og standi þannig fjárhagslega að þessum tilraunum, en þó má að sjálfsögðu ekki víkja í neinu frá hinu stranga eftirliti. — Læt ég svo máli mínu lokið.