29.01.1951
Neðri deild: 57. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í C-deild Alþingistíðinda. (3544)

141. mál, innflutningur búfjár

Frsm. meiri hl. (Bjarni Ásgeirsson) :

Herra forseti. Ég skal sízt draga úr því, sem hv. frsm. minni hl., hv. 2. þm. Skagf., ræddi um nauðsyn á öryggisráðstöfunum í sambandi við innflutning erlends búfjár, og þarf ekki að rökstyðja það sérstaklega. Þó að það sé hverju orði sannara, að við höfum til þessa goldið mikið afhroð fyrir það, hve ógætilega var að staðið um innflutning búfjár, þá er ekki saman jafnandi við þær varúðarráðstafanir, sem nú eru í l. um innflutning búfjár. Þegar t. d. sá innflutningur fór fram, sem hv. þm. minntist á, var ekki ráðgert að hafa dýrin í eyju nema örstuttan tíma, jafnvel ekki nema eitt sumar eða svo. Þó nægði sá tími til þess, að fram kom þegar veiki í þeim gripum og þeim var öllum slátrað. En það fór nú verr með féð. Nú er það í l., að ef til kæmi að innleiða erlend búfjárkyn með blöndun, skuli dýrin ekki flutt inn, heldur sæði þeirra, og þannig færi kynblöndun fram. Öryggisráðstafanir þær, sem nú gilda, eru því varfærnislegar og strangar og ekki sambærilegar við það, sem áður var í l. Væri komið upp erlendu kyni á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í l., mundu líða um sex ár þangað til það væri orðinn hreinkynja stofn. Hann yrði alinn upp í eyjum, og eftir önnur sex ár mætti flytja hann til meginlandsins. Ég viðurkenni, að möguleiki er fyrir hendi með því að taka þau naut, sem til eru af hinu eldra kyni, sem flutt var inn á árunum en mjög mikill seinagangur yrði þó á þessu öllu. Ég vil ekki stuðla að neinu í þessu máli, sem er hættumeira en annað, en vil endurtaka það, sem ég sagði áðan, og hef fyrir mér álit kunnáttumanna, að ekki stafaði öllu meiri hætta af því, þótt fluttir væru inn í eitt skipti fyrir öll nýfæddir kálfar, heldur en af hinu að flytja inn sæði í 6–7 ár. Þetta er mín skoðun á málinn, og þess vegna legg ég til, að þar sem sú aðferð bæri fljótvirkari árangur, yrði hún fremur valin.

Það er rétt hjá hv. þm., að ekki er tekið fram í lagafrv., að hér skuli aðeins vera um nýfædda kálfa að ræða, heldur nefnd naut og nautgripir. En það er þó meiningin með þessu. Og ef það gæti orðið til samkomulags, að þetta yrði beint tekið fram, að aðeins skyldi um nýfædda kálfa að ræða, skal ég fús til þess samkomulags. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að ræða málið lengur.