29.01.1951
Neðri deild: 57. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í C-deild Alþingistíðinda. (3545)

141. mál, innflutningur búfjár

Frsm. minni hl. (Jón Sigurðsson) :

Hv. frsm. meiri hl. vék að því í sinni fyrri ræðu og endurtók nú, að ekki væri meiri hætta af innflutningi kálfa eða gripa en af sæðisflutningi. Þegar l. voru sett, var gerður þarna talsverður skilsmunur. l. heimila nú sæðisflutning, og þarf enga breyt. þeirra hluta vegna, svo að þeir, sem um málið hafa fjallað á þingi, hafa a. m. k. litið svo á, að hér væri ekki um sama hlut að ræða. Annars tel ég mig ekki dómbæran til að fullyrða, að ekki geti einhver hætta stafað af sæðisflutningi. En af mínu leikmannsviti finnst mér, að heldur ætti að reyna þann innflutning en flytja gripina sjálfa. Jafnvel þó að tekið væri fram, að eingöngu væru fluttir inn kálfar, skiptir það ekki eitt máli, heldur hitt, úr hvaða umhverfi þeir eru fluttir, þ. e. hvort sýkingarhætta getur stafað af þeim eða ekki. Sem betur fer tel ég að menn hafi lært af reynslunni, því að nú eru ströng ákvæði um þetta mál. Og ég tel ekki ástæðu til að tefla neitt á tvær hættur meir en gert er með sæðisflutningi. Minnzt var á, að við yrðum með því móti að bíða lengur eftir árangri. Rétt er það. En er það ekki nokkuð margt, sem við verðum að bíða eftir að sjá árangur af í búnaðarframkvæmdum? Mér kemur í hug mál, sem hefur verið ofarlega á baugi og er eitt af framtíðarmálunum, skógræktarmálið. Hvað lengi þarf þar að bíða eftir verulegum árangri? Vitanlega þarf að bíða heila mannsævi, og þó býst ég við, að menn hiki ekki við framkvæmdir, ef menn hafa trú á þeim. Ef menn hafa nokkra trú á þessum kynbótum, tel ég enga frágangssök að bíða nokkur ár eftir árangri.